Rafræn stjórnsýsla og fjarþjónusta þróast hratt

Nú þegar samkomubann er í gildi og tilmæli um auknar fjarlægðir milli fólks hefur Akureyrarbær, líkt og önnur sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki, þurft að laga sig að aðstæðum til að halda uppi sem mestri starfsemi og þjónustu.

Undanfarna daga hafa verið tekin stór skref í þróun rafrænnar stjórnsýslu og fjarþjónustu, sem mætti segja að sé ein af jákvæðum afleiðingum þessa ástands.

72 manna fjarfundur

Flestir starfsmannafundir eru haldnir með fjarbúnaði enda hefur vinnustöðum verið skipt upp og margir vinna heima. Neyðarstjórn bæjarins, sem samanstendur af bæjarstjóra, sviðsstjórum og bæjarráði, fundar reglulega með fjarbúnaði og verður fyrsti fjarfundur bæjarstjórnar haldinn í dag. Almennt hefur þetta verklag gengið vonum framar, jafnvel þótt sumir fundir séu mjög fjölmennir og úrlausnarefnin flókin. Þess má geta að í byrjun vikunnar var haldinn 72 manna fjarfundur með starfsfólki Giljaskóla sem var í senn mjög gagnlegur og áhugaverð tilraun.

Frá fundi neyðarstjórnar Akureyrarbæjar

 

Rafrænar umsóknir um fjárhagsaðstoð

Íbúar hafa einnig verið hvattir til að nota þjónustugátt bæjarins í ríkari mæli og er um leið verið að fjölga möguleikum þar inni. Nú síðast hafa umsóknir um fjárhagsaðstoð verið rafvæddar, en það hefur staðið til um nokkurt skeið, og er sótt um slíka aðstoð í þjónustugáttinni sem er aðgengileg hér á heimasíðunni.

Örugg fjarviðtöl í velferðarþjónustu

Í þessari viku var hafist handa við að nota fjartækni til að veita skjólstæðingum fjölskyldusviðs sérhæfða þjónustu, svo sem ráðgjöf til fatlaðs fólks og aðstandenda. Með hjálp forritsins Kara Connect, sem er sniðið að heilbrigðis- og velferðarþjónstu og talið öruggt út frá persónuverndarsjónarmiðum, er nú hægt að taka viðtöl við viðkvæma hópa í gegnum tölvu. Óhætt er að segja að þessi aðferð lofi góðu. 

Verið er að undirbúa sama verklag í heimaþjónustunni, sem heyrir undir búsetusvið, en markmið þeirrar þjónustu er meðal annars að veita faglega ráðgjöf og leiðbeiningar til einstaklinga með fötlun af margvíslegum toga sem þurfa aðstoð og stuðning til að takast á við ýmis verkefni daglegs lífs.

Ljóst er að tæknin sem um ræðir hefur verið til staðar um nokkurt skeið, en þessar aðstæður krefjast þess að allir leggi sig fram við að tileinka sér nýjar aðferðir. Þannig er hægt að læra heilmikið, koma sterkari út úr þessu ástandi og bæta þjónustuna til framtíðar.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan