Peningaverðlaun í ritlistakeppni

Ljósmynd: Sigríður Kristjana Ingimarsdóttir, 2021.
Ljósmynd: Sigríður Kristjana Ingimarsdóttir, 2021.

Fleiri en 20 ungmenni á aldrinum 16-25 ára sóttu ritlistasmiðjuna Ungskáld í Menntaskólanum á Akureyri um síðustu helgi. Mjög góður rómur var gerður að leiðsögn rithöfundanna Fríðu Ísberg og Dóra DNA.

Í framhaldi af ritlistasmiðjunni er nú efnt til ritlistakeppni sem er opin öllum ungmennum á aldrinum 16-25 ára. Það er alls ekkert skilyrði að hafa tekið þátt í ritlistasmiðjunni þótt vonir standi til að þátttaka þar komi að góðum notum. Í ritlistakeppninni verða veitt peningaverðlaun fyrir efstu þrjú sætin. Engar hömlur eru settar á texta, hvorki varðandi efnistök né lengd. Þeir þurfa þó að sjálfsögðu að vera á íslensku. Skilafrestur á innsendum verkum er til og með 16. nóvember sem er dagur íslenskrar tungu, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar (og reyndar Jóns Sveinssonar, Nonna, líka). Þátttakendur senda skrif sín á netfangið ungskald@akureyri.is.

Þriðjudagskvöldið 7. desember kl. 20.00 verður kaffihúsakvöld Ungskálda haldið á Ketilkaffi í Listasafninu á Akureyri. Kvöldið er ætlað ungu fólki á aldrinum 16-25 ára sem hefur áhuga á ritlist. Þar gefst ungskáldum frábært tækifæri til að hitta önnur skáld, kynnast verkum þeirra og jafnvel lesa upp sín eigin verk. Kaffi, kakó og kökur í boði fyrir gesti.

Fimmtudaginn 9. desember kl. 17.00 tilkynnir dómnefnd úrslit í ritlistasamkeppni Ungskálda 2021 í Amtsbókasafninu á Akureyri.

Allar nánari upplýsingar á ungskald.is.

Markmiðið með verkefninu er að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára því að kostnaðarlausu. Verkefnið Ungskáld hefur verið við lýði á Akureyri í nokkur ár og er það eina sinnar tegundar á landinu. Að verkefninu standa Akureyrarstofa, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri, Ungmennahúsið í Rósenborg og Amtbókasafnið.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan