Vinnugleði í Ræktunarstöðinni

Kristín, Hjördís og Davíð sem hafa lagt hönd á plóg í Ræktunarstöðinni að undanförnu, sér og öðrum t…
Kristín, Hjördís og Davíð sem hafa lagt hönd á plóg í Ræktunarstöðinni að undanförnu, sér og öðrum til ánægju og gagns.

Mikið og blómstrandi líf er í Ræktunarstöð Akureyrarbæjar um þessar mundir. Á meðan starfsfólk undirbýr sumarblómin þá rækta Akureyringar eigið grænmeti sem aldrei fyrr og sjálfboðaliðar úr hópi eldri borgara prikla trjáplöntur.

Mikil aukning í grænmetisræktun

Líkt og undanfarin ár gefst fólki kostur á að leigja matjurtagarða af sveitarfélaginu. Jóhann Thorarensen, garðyrkjumaður og umsjónarmaður Ræktunarstöðvarinnar, segir að áhugi og eftirspurn eftir görðum hafi aukist mikið.

„Það varð alveg sprenging núna í vor, fjölgaði líklega um 70 manns. Þetta var líka svona eftir hrunið og virðist bæði vera sjálfsbjargarviðleitni þegar kreppir að og svo er fólk kannski ekki að ferðast mikið núna og telur að tímanum sé vel varið hérna,“ segir Jóhann.

Sumarblómin líta dagsins ljós

En það eru fleiri verkefni sem heyra undir Ræktunarstöðina, svo sem ræktun á sumarblómum, trjáplöntum og umhirða skrautrunna bæjarins. „Nú erum við að undirbúa blómabeðin og byrja að stinga sumarblómum niður. Það er okkar metnaðarmál að gera bæinn fallegan,“ segir Jóhann.

Með auknum verkefnum sem fylgja þessum árstíma kemur ævinlega inn sumarstarfsfólk, mest megnis ungmenni og skólafólk, en að þessu sinni barst óvæntur liðsauki í vorverkunum.

Hjálpa til og hafa gaman af

„Við komum bara hérna í apríl og töluðum við Jóhann og spurðum hvort við gætum orðið að einhverju gagni,“ segir Kristín Ólafsdóttir sem hefur síðan ásamt nokkrum öðrum komið flesta morgna í Ræktunarstöðina og unnið í tvo til þrjá klukkutíma í senn.

„Ég geri þetta bara fyrir ánægjuna. Það er þörfin fyrir að vera í mold, einhverju brúnu og grænu, þetta er svo lifandi skelfing gaman,“ segir Hjördís Haraldsdóttir. „Við héldum kannski að það væru einhver vandræði vegna veirunnar, það væri erfitt að fá fólk og mætti ekki hópa fólki saman,“ segir Davíð Hjálmar Haraldsson.

Birkiplöntur í Græna trefilinn

Helsta verkefni sjálfboðaliðanna er að prikla eða dreifplanta birki, það er að taka smáplöntur og setja niður í fjölpotta þar sem þær eru í um tvö ár áður en þær verða gróðursettar í Græna trefilinn ofan Akureyrar. „Maður verður að vanda sig, þetta má alls ekki þorna því ræturnar eru svo viðkvæmar. Það þýðir ekkert að kasta höndum til við þetta því plönturnar eiga að lifa og verða stór tré,“ segir Davíð.

Sjálfboðaliðarnir hafa greinilega gaman af því að vinna, kunna vel til verka og er afraksturinn eftir því. Samtals hafa þau priklað hátt í sex þúsund birkiplöntur undanfarnar tvær vikur. „Þau hafa bara alveg bjargað mér því mig vantaði aðstoð áður en sumarstarfsfólkið kom. Þau eru með matjurtagarð og hafa áhuga á gróðri og hafa þetta í sér. Þau eru bæði dugleg og samviskusöm,“ segir Jóhann. 

Systkinin Hjördís og Davíð eru uppalin í sveit en una sér vel á Akureyri. „Við erum af miklu blómafólki komin og það er kannski í litningunum að vinna í þessu, þetta er meðfætt. En ég held nú að þetta sé með betri bæjarfélögum á landinu hvað gróðurinn og umhverfið snertir,“ segir Davíð.

Hér eru nokkrar myndir úr Ræktunarstöðinni og matjurtagörðunum: 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan