„Ótrúlega gefandi að geta aðstoðað“

Á góðri stundu í vinnunni. Matthildur Jónsdóttir ásamt Hauki Ágústssyni.
Á góðri stundu í vinnunni. Matthildur Jónsdóttir ásamt Hauki Ágústssyni.

Fjölbreytt heimaþjónusta er starfrækt á vegum Akureyrarbæjar. Markmiðið er að styðja fólk og gera því kleift að búa sem lengst á eigin heimili við sem mest lífsgæði.
Matthildur Jónsdóttir, sem hefur unnið við heimaþjónustu síðastliðin sex ár, segir hér aðeins frá starfinu og þjónustunni sem fólki stendur til boða.

„Starfið er mjög fjölbreytt. Það felst aðallega í því að aðstoða aldrað og veikt fólk við daglegt líf. Þarfir hvers og eins eru misjafnar, sumir þurfa mikla þjónustu á meðan aðrir þurfa rétt aðeins öryggisinnlit til að athuga hvort allt sé í góðu. Þjónustan getur því verið misjöfn eins og til dæmis að aðstoða fólk við að klæða sig, gefa fólki lyf, aðstoða með mat, fara í búð fyrir fólk, þrífa, fara út að ganga, spjalla, aðstoða fólk í bíla sem fer í dagþjónustu í Hlíð og fleira. Sumir þurfa litla þjónustu, kannski bara einu sinni í mánuði meðan aðrir eru með umfangsmikla þjónustu og mörg innlit á sólarhring,“ segir Matthildur. 

Hvað er skemmtilegast?
„Fólkið. Ég er endalaust að hitta skemmtilegt og áhugavert fólk. Langflestir eru svo þakklátir fyrir aðstoðina sem það fær og manni líður stundum eins og maður hafi gert þvílíkt góðverk. Það er ótrúlega gefandi að geta aðstoðað.“

En hvað er mest krefjandi?
„Að koma á heimili þar sem ástandið er orðið erfitt vegna veikinda, t.d. að horfa upp á fullorðna aðstandendur annast veikan maka án þess eiginlega að hafa heilsu til þess. Einnig er alltaf erfitt þegar maður missir góðan vin sem maður hefur annast.“

Hvernig er hefðbundinn vinnudagur?
„Unnið er á vöktum alla daga vikunnar, allan ársins hring og næturvaktin er í samvinnu við heimahjúkrun. Vinnuskipulag á dagvöktum er þannig að við hittumst kl. 8 á morgnana og förum yfir verkefni dagsins. Um kl. 8:30 er starfsfólk komið inn á heimili og verkefnin eru misjöfn frá degi til dags. Stundum byrjum við á innlitum, hjálpa fólki að komast á fætur og suma aðstoðum við með lyf, fylgja fólki í bíla og ýmis tilfallandi verkefni. Næsta verkefni getur verið að þrífa í einn eða tvo tíma hjá einhverjum og svo gæti næsta verkefni verið að fara í búð fyrir annan. Annars er þetta mjög fjölbreytt og enginn dagur eins.“

Matthildur segir að heimaþjónustan hafi þróast mikið undanfarin ár. „Hér áður fyrr snerist þetta aðallega um að þrífa og oft voru þetta stórþrif sem starfsfólk var að gera á heimilum. Í dag erum við meira í almennum heimilisþrifum og meira er lagt upp úr umönnun og félagslegum þáttum. Félagslegi þátturinn er mjög mikilvægur til þess að fólk geti verið lengur heima hjá sér. Sumir treysta sér ekki einir út að ganga og aðrir hafa lítið bakland og eru mikið einir. Þá getum við aðstoðað og hjálpað fólki að lifa sem eðlilegustu lífi,“ segir hún.

Hún segir einnig að tæknilausnir séu notaðar í auknum mæli til að auðvelda störf og bæta þjónustuna, svokölluð velferðartækni. „Það eru til ýmiskonar hjálartæki sem auðvelda fólki að takast á við daglegt líf eins og til dæmis göngugrindur, sokkaífærur, griptangir, snúningslök, salernisupphækkanir, sjúkrarúm og fleira.

Tækninni fleytir stöðugt fram og við erum til dæmis byrjuð að nota Memaxi kerfið sem hjálpar okkur að skipuleggja þjónustuna og hafa samskipti við skólstæðinga. Með spjaldtölvum sem eru staðsettar á heimilum fólks er hægt að sjá dagskrá viðkomandi og ýmsar upplýsingar. Við merkjum svo við þegar búið er að heimsækja, hvað hafi verið gert og getum komið skilaboðum til annarra starfsmanna. Heimahjúkrun (HSN) og starfsfólk hjúkrunarheimila getur séð þessar upplýsingar og þannig getum við hjálpast að og samþætt þjónustuna. Þetta eykur mjög öryggi okkar skjólstæðinga. Einnig er hægt að taka myndsamtöl sem gera okkur kleift að hafa enn meira eftirlit og þá geta aðstandendur líka nýtt sér þetta til að hafa samskipti við sitt fólk,“ segir Matthildur.

Smelltu hér til að finna nánari upplýsingar um heimaþjónustu Akureyrarbæjar. 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan