Öskudagurinn á Akureyri

Öskudagurinn 2020. Ljósmynd: Auðunn Níelsson af Facebook síðunni Akureyri - miðbær.
Öskudagurinn 2020. Ljósmynd: Auðunn Níelsson af Facebook síðunni Akureyri - miðbær.

Öskudagurinn á miðvikudaginn verður með óhefðbundnu sniði eins og margt annað á farsóttartímum. Rík hefð er fyrir því á Akureyri að börn gangi á milli vinnustaða og syngi fyrir sælgæti og hafa margir velt fyrir sér fyrirkomulaginu í ár.

Fyrirtækjum, stofnunum og öðrum vinnustöðum er í sjálfsvald sett hvort þau halda upp á öskudaginn og hvernig það er útfært innan þeirra sóttvarnareglna sem gilda. Samkvæmt upplýsingum sveitarfélagsins er afar mismunandi hvernig þessu verður háttað, en ljóst er að framboð af vinnustöðum sem taka á móti syngjandi börnum verður umtalsvert minna en venjulega.

Mörg foreldrafélög á Akureyri hafa því brugðið á það ráð að skipuleggja annars konar viðburði fyrir börnin sökum aðstæðna sem er í takt við hugmyndir um öðruvísi öskudag sem Almannavarnir settu fram í síðustu viku.

Akureyrarbær stendur ekki fyrir sérstökum hátíðarhöldum eða annarri skipulagningu öskudagsins, ekki frekar en undanfarin ár. Hins vegar eru börn velkomin að syngja í nokkrum stofnunum bæjarins, svo sem í Ráðhúsinu, Glerárgötu 26, Amtsbókasafninu og Sundlaug Akureyrar.

Foreldrar eru beðnir um að safnast ekki saman á þessum stöðum. Börn fædd 2005 og síðar eru undanskilin sóttvarnareglum, en ef fullorðnir þurfa einhverra hluta vegna að fylgja börnunum inn þá er nauðsynlegt að vera með grímu og halda tveggja metra fjarlægð.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan