Opnun samsýningarinnar Vor í Listasafninu á Akureyri

Kæra listafólk, starfsfólk Listasafnsins og gestir.

Stundum þarf maður að klípa sig aðeins í handlegginn og segja upphátt - ekki gleyma því Ásthildur, að þú býrð í samfélagi sem telur um 19 þúsund manns. Og hví skyldi ég þurfa að minna mig á það? Jú, metnaðarfull sýning eins og þessi, þar sem sjá má verk 30 listamanna sem eiga það sameiginlegt að tengjast Norðurlandi, er vitnisburður um það hversu kröftugt og spennandi listalíf einkennir svæðið. Allt er þetta listafólk sem býr og starfar eða hefur tengingu við svæðið og þess má geta að færri komust að en vildu.

Eins og fram kemur í inngangi sýningarskrárinnar sem ritaður er af Vigdísi Rún Jónsdóttur listfræðingi, þá er löng hefð fyrir samsýningum myndlistarmanna á Akureyri og var sú fyrsta árið 1972 á vegum Myndlistarfélags Akureyrar. Sjö árum síðar var svo fyrsta samsýning myndlistarmanna á Norðurlandi haldin af félagasamtökum akureyskra myndlistarmanna á Norðurlandi og fór sú sýning fram í Hlíðarbæ.


Og nú erum við hingað komin - sýningin Vor - samsýning sem haldin er á tveggja ára fresti en þetta form var endurvakið árið 2015 með sýningunni Haust. Og það er víst ábyggilegt að þjóðskáldið okkar, Matthías Jochumsson, mælti rétt þegar hann flutti úr sveit til bæjarins árið 1887 og sagði við það tækifæri að "hér væru þó bækur og dálítið af comfort og society".


Já, Matthías, þarna hafðirðu aldeilis rétt fyrir þér - við höfum bækur á Akureyri og meira aðsegja mikið af þeim! Og sýningin Vor er til marks um að hlúð hefur verið að samfélagi menningar og lista – hér er comfort og sociaty. Þetta fallega hús sem hýsir Listasafnið á Akureyri og fjárfestingin sem fólst í því að gera það svona vandað og metnaðarfullt, er líka til marks um metnaðarfullt samfélag og ég þreytist ekki á að hrósa okkur fyrir þessa fallegu byggingu og það er von mín að sýningin njóti sín hér og muni kalla á fjölda gesta, bæði innlendra og erlendra.
Samsýning á borð við þessa er ekki aðeins fræðsla fyrir gesti heldur getur einnig verið gluggi út í heim og vonandi opnast nýjar víddir og ný tækifæri fyrir listafólkið sem hér sýnir.


Til hamingju kæra listafólk með sýninguna Vor og ég segi hana hér með formlega setta.