Opið bókhald Akureyrarbæjar

Bæjarfulltrúarnir Gunnar Gíslason, Sóley Björk Stefánsdóttir og Guðmundur Baldvin Guðmundsson formað…
Bæjarfulltrúarnir Gunnar Gíslason, Sóley Björk Stefánsdóttir og Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs, ásamt Eiríki Birni Björgvinssyni bæjarstjóra og Dan Jens Brynjarssyni sviðsstjóra fjársýslusviðs Akureyrarbæjar. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Ákveðið hefur verið að opna bókhald Akureyrarbæjar og gera það aðgengilegt á heimasíðunni Akureyri.is. Þar verður framvegis hægt að skoða útgjaldaliði bæjarins, hvaða greiðslur hafa verið inntar af hendi og til hverra, hver kostnaður er og hefur verið við einstaka málaflokka, verkefni og deildir. Einnig verður hægt að bera saman kostnaðarliði á milli ára á aðgengilegan og myndrænan hátt.

Bókhaldið er brotið niður í fimm liði á heimasíðunni og þar er hægt að skoða tekjur og gjöld fyrri A- og B-hluta sjóða, auk þess að greina gjöld eftir bókhaldsliðum. Opnun bókhaldsins á heimasíðunni er liður í innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu hjá Akureyrarkaupstað.

„Þetta er mjög jákvætt skref í að efla gagnsæi og aðgangi að opinberum upplýsingum. Þróun í hugbúnaði hefur í dag einnig hjálpað okkur að birta þessar upplýsingar með auðveldari hætti en áður. Opnun bókhaldsins er jafnframt enn eitt skrefið í rafrænni stjórnsýslu hjá sveitarfélaginu og sú þróun mun halda áfram,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri.

Hlekkur á opið bókhald Akureyrarkaupstaðar á Akureyri.is.

 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan