Öflugt íþróttastarf ber ávöxt

Þór/KA, Íslandsmeistarar kvenna í knattspyrnu 2017. Mynd: Þórir Tryggvason.
Þór/KA, Íslandsmeistarar kvenna í knattspyrnu 2017. Mynd: Þórir Tryggvason.

Akureyrarbær leggur mikinn metnað í að búa íþróttastarfi í bænum sem besta umgjörð og styður við starf íþróttafélaga með ýmsum rausnarlegum hætti. Þessa má víða sjá merki og nú í vetur, eins og oft áður, hefur öflugt íþróttastarf í bænum borið ríkulegan ávöxt.

Í gærkvöldi varð Þór/KA deildarbikarmeistari kvenna í knattspyrnu eftir hörku úrslitaleik og vítakeppni. Sigur þeirra er enn ein skrautfjöðurin í hatt hópíþrótta á Akureyri síðan Þór/KA varð Íslandsmeistari kvenna í knattspyrnu í lok september 2017. Í kjölfarið fylgdi sigursæll íþróttavetur þar sem Akureyringar sýndu mátt sinn og megn í íshokkí og blaki.

SA-Víkingur varð Íslands- og deildarmeistari í íshokkí karla og kvennalið félagsins tóku sitthvorn titilinn, SA-Ynjur urðu deildarmeistarar í íshokkí og SA-Ásynjur Íslandsmeistarar í íshokkí eftir úrslitarimmu við SA-Ynjur. Karlalið KA í blaki átti stórkostlegan vetur og landaði eftirsóttri þrennu með því að verða deildar-, bikar- og Íslandsmeistari í blaki 2018. Handboltalið bæjarins létu sitt ekki eftir liggja í vetur, KA/Þór varð 1. deildarmeistari í handbolta kvenna og Akureyri handboltafélag varð 1. deildarmeistari í handbolta karla. Handboltalið KA er núna einum sigri, þ.e.a.s. komið í dauðafæri til að fylgja Akureyri handboltafélagi upp í efstu deild. Síðast en ekki síst getur Þór/KA bætt einni fjörðrinni til viðbótar í hattinn þegar liðið getur orðið meistari meistaranna í knattspyrnu kvenna á sunnudaginn 30. apríl.

Íþróttastefna Akureyrarbæjar 2017-2022.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan