Öðruvísi öskudagur á farsóttartímum

Öskudagurinn er miðvikudaginn 17. febrúar. Rík hefð er fyrir því að krakkar á Akureyri gangi þá á milli verslana og fyrirtækja og syngi fyrir nammi.

Fólk hefur velt því fyrir sér hvaða fyrirkomulag verði á öskudeginum nú á tímum Covid-19 og af því tilefni hafa almannavarnir, Embætti landlæknis og landssamtökin Heimili og skóli sent frá sér tilmæli um öðruvísi öskudag á farsóttartímum.

Tilmælin felast fyrst og fremst í því að fólk vari varlega, muni tveggja metra regluna, þvoi sér um hendur og forðist óþarfa snertingar. Að sjálfsögðu þarf að virða fjöldatakmarkanir og annað sem gildir um þessar mundir.

Í tilkynningu frá almannavörnum, Embætti landlæknis og Heimili og skóla segir:

Gerum okkur dagamun í nærumhverfinu
Höldum upp á daginn á heimavelli, í skólanum, frístundarheimilinu eða félagsmiðstöðinni.

Mætum í búningum
Brjótum upp á hversdagsleikann með því að mæta öll í búningum. Ungir sem aldnir.

Endurvekjum gamlar hefðir
Nú er tækifæri að endurvekja gamlar öskudagshefðir eins og að búa til öskudagspoka og slá köttinn úr tunnunni. Með sóttvarnir í huga að sjálfsögðu.

Syngjum fyrir sælgæti
Ef hefð er fyrir því að ganga á milli húsa eða fyrirtækja í hverfnu væri upplagt að foreldrafélög tækju upp á sína arma að halda utan um hvar sé hægt að koma og syngja fyrir nammi. Athugið að gæta fyllstu sóttvarna og gefð aðeins sérinnpakkað sælgæti.

Nánari upplýsinga um útfærslu á Akureyri er að vænta þegar nær dregur.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan