Oddfellowar gerðu upp íbúðir

Svefnherbergi í annarri íbúðinni.
Svefnherbergi í annarri íbúðinni.

Oddfellowreglan hefur gert upp að fullu tvær raðhúsaíbúðir við Öldrunarheimili Akureyrarbæjar, sem ætlaðar eru sjúklingum SAk, aðstandendum þeirra svo og aðstandendum heimilisfólks Öldrunarheimilanna. Auk þess hefur Oddfellowreglan keypt allan nauðsynlegan húsbúnað og innanstokksmuni í íbúðirnar, þannig að þær eru nú tilbúnar til notkunar.

Ákveðið var að ráðast í þetta verkefni í tilefni 100 ára afmæli Oddfellowstúkunnar Sjafnar á Akureyri í tilefni 100 ára afmælis hennar og Oddfellowstarfs á Akureyri.

Fimm stúkur eru nú starfandi á Akureyri og tóku þær allar þátt í verkefninu ásamt Líknar- og þróunarsjóði Oddfellowreglunnar á Íslandi.

Einar Hjartarson yfirmeistari Sjafnar segir afar ánægjulegt að afhenda íbúðirnar á þessum tímamótum: „Oddfellowreglan hefur frá upphafi verið öflugur liðsmaður til góðra verka, hvort sem um er að ræða mannræktarstarf innan hennar eða framlög til margvíslegra líknarmála. Mörg líknarverkefni eru unnin hérna í heimabyggð á hverju ári, en þetta afmælisverkefni er fjárhagslega mun stærra og viðameira en flest. Ég er sannfærður um að íbúðirnar koma að góðum notum og styrki innviði samfélagsins.“

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri veitti íbúðunum viðtöku. „Öldrunarheimilin og málefni eldra fólks á Akureyri, hafa notið margháttaðs stuðnings Oddfellowreglunnar á undanförum árum og áratugum," sagði Eiríkur Björn. „Slíkur stuðningur og mannkærleikur í verki, er ómetanlegur, bæði sem bakland og drifkraftur framfara. Stuðningurinn birtist m.a. í skýrum áherslum á mannúðar-, líknar og velferðarmálum og er á þann hátt vegvísir fyrir aðra þegar kemur að velferðarmálum samfélagsins í heild. Með þessum tveimur íbúðum er stigið mikilvægt og stórt framfaraskref í að efla og bæta aðbúnað fyrir einstaklinga og fjölskyldur þeirra sem þurfa að leita sér heilbrigðisþjónustu og meðferðar á Akureyri. Einn mikilvægur hluti þessa er líknarmeðferð þar sem leitast er við að bæta líðan og lífsgæði þeirra sem eru með langvinna og lífsógnandi sjúkdóma. Með endurgerð íbúðanna við Hlíð sem Oddfellowstúkan Sjöfn á Akureyri hefur haft frumkvæði að er stigið mikilvægt framfaraskref í þjónustu við aldraða og sjúka á Akureyri. Fyrir þetta erum við afar þakklát.“

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan