Oddeyrarskóli fagnar 60 ára afmæli

Nemendur á afmælishátíðinni.
Nemendur á afmælishátíðinni.

Fimmtudaginn 7. desember fagnaði Oddeyrarskóli 60 ára afmæli sínu. Undirbúningur fyrir hátíðahöldin hafði staðið í alllangan tíma, til dæmis voru smiðjudagar í lok nóvember helgaðir afmælinu.

Afmælisdagurinn sjálfur hófst með hátíð á sal skólans. Þar mættu nemendur, starfsfólk og um 35 boðsgestir. Núverandi skólastjóri, Kristín Jóhannesdóttir og forveri hennar, Helga Hauksdóttir, fluttu ræður. Nemendur sýndu einnig hvað í þeim býr með söng og dansi. Nemendur annars bekkjar sungu gamlan skólasöng Oddeyrarskóla, rappsveitin Blautir sokkar flutti tvö lög, ásamt dansatriði, nemendur á unglingastigi sýndu frumsaminn dans gegn einelti og þrír nemendur unglingastigs röppuðu um skólann. Í lok dagskrár á sal komu þeir Ívar og Ívan Mendez frá Tónlistarskólanum á Akureyri og léku undir fjöldasöng og er óhætt að segja að stemningin hafi verið góð. Þeir Ívar og Ívan hafa stýrt söngstundum í Oddeyrarskóla í vetur og er ljóst að sú vinna hefur skilað góðum ávexti.

Foreldrafélagið gaf skólanum góðar gjafir sem nýtast munu nemendum vel, bæði búnað til daglegrar hreyfingar í skólanum og fatboy púða á bókasafnið. Þá gáfu hinir skólar bæjarins inneign í Eymundsson, sem mun nýtast til bókakaupa í LESTU-hilluna góðu. Við þökkum innilega fyrir góðar gjafir.

Að lokinni dagskrá á sal var boðið upp á afmælisköku. Þá tók við opið hús þar sem fjöldi gesta kom og kynnti sér skólastarfið. Eitt og annað var í boði og má þar nefna að nemendur sýndu afrakstur þemadaga þar sem unnið var með sögu skólans, dans gegn einelti, myndband um skólann og geysiflott líkön sem nemendur gerðu af húsnæði skólans. Þá sýndu nemendur gestum hvernig þeir nýta tæknina til náms og hvaða möguleika hún býður upp á. Gestir fengu til dæmis að búa til eigin tónlist, stýra litlum vélmennum, kóða og taka þátt í just dance. Jafnframt fengu gestir að sjá hvernig nemendur læra á fjölbreyttan hátt, svo sem með byrjendalæsi, samræðum í námi, Zankow stærðfræði, sköpun o.s.frv.

Smelltu á myndirnar til að sjá stærri útgáfu og fletta á milli þeirra.

       

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan