Nýtt starfsár Listasafnsins á Akureyri

Á kynningarfundi sem haldinn var í Listasafninu á Akureyri í gær var komandi starfsár, sýningaskrá ársins 2020 og nýtt kaffihús kynnt. Einnig var farið yfir starfsemi safnsins í heild sem og áframhaldandi samstarf við Icelandair Hotel Akureyri. Í lok fundarins undirrituðu Hlynur Hallsson, safnstjóri, og Auðar B. Ólafsdóttir samning um rekstur kaffihúss í Listasafninu. Prentaðri dagskrá ársins hefur verið dreift í öll hús á Akureyri.

Kaffihúsið ber heitið Kaffi og list og hefur starfsemi 1. mars nk. „Ég er mjög spennt og full tilhlökkunar yfir að hefja starfsemi í þessu glæsilega húsi og fá að taka þátt í lifandi starfsemi safnsins og Listagilsins," sagði Auður við undirritun. „Kaffi og list mun bjóða upp á gott úrval kaffidrykkja úr fyrsta flokks kaffibaunum frá Te og kaffi ásamt öðrum fjölbreyttum veitingum. Hér eru miklir möguleikar á líflegri starfsemi kaffihúss og ekki síst á sumrin þegar hægt verður að taka útisvæðið til notkunar og jafnvel útisvalir Listasafnsins þegar aðstæður leyfa."

Sýningaárið 2020 hefst formlega næstkomandi laugardag 1. febrúar kl. 15 þegar alþjóðlega samsýningin Línur verður opnuð. Á sýningunni koma saman átta listamenn frá sex ólíkum löndum og fjórum heimsálfum; Hong Kong, Litháen, Japan, Þýskalandi, Mexíkó og Túnis og „draga línur". Hluti verkanna er staðbundinn, þ.e. unninn sérstaklega inn í rýmið í Listasafninu á Akureyri. Síðan rekur hver sýningin aðra og á meðal myndlistarmanna ársins eru Snorri Ásmundsson, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Brynja Baldursdóttir, Heimir Björgúlfsson, Arna Valsdóttir og Þorvaldur Þorsteinsson.

Þriðjudagsfyrirlestrarnir verða áfram stór þáttur í fræðslustarfi Listasafnsins en þeir eru settir upp í samvinnu við Verkmenntaskólann á Akureyri, Myndlistarfélagið, Háskólann á Akureyri og Gilfélagið. Þeir eru sem fyrr haldnir á hverjum þriðjudegi kl. 17-17.40 yfir vetrartímann. Fræðslustarfið heldur áfram að þróast því fyrir utan almenna leiðsögn, fjölskylduleiðsögn og listvinnustofur tekur Listasafnið nú reglulega á móti fólki með Altzheimer sjúkdóminn í samstarfi við Hlíð – öldrunarheimili Akureyrarbæjar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan