Nýtt götuheiti með aðstoð nemenda

Skógargata - Mynd: Skjáskot af ja.is
Skógargata - Mynd: Skjáskot af ja.is

Gatan þar sem gróðrarstöðin Sólskógar stendur hefur loks fengið nafn. Eftir samráð við nemendur í Naustaskóla var ákveðið að gatan heiti Skógargata.

Skógargata er lítil gata nyrst í Kjarnaskógi. Þar hefur í áratugi verið gróðrarstöð en fyrirtækið Sólskógar og Skógræktarfélag Eyfirðinga eru nú með starfsemi við götuna.

Skipulagsráð tók í október síðastliðnum fyrir erindi frá lóðarskrárritara Akureyrarbæjar um að gatan fengi götuheiti. Sviðsstjóra skipulagssviðs var falið að leita eftir tillögum að götuheiti frá nemendum í Naustaskóla í samráði við skólastjórnendur.

Tillögur bárust í desember og voru sendar nafnanefnd til úrvinnslu. Líkt og við var að búast komu fram margar góðar, frumlegar og fjölbreyttar hugmyndir að nafni, þar á meðal Blómahagi, Ásthildargata, Gata skógarins, Kjarnaskógargata, Músagata, Skógargata og Risaeðlustræti. Hér má sjá allar tillögur sem bárust.

Nafnanefndin lagði til að valið yrði milli Skógargötu og Músagötu. Greidd voru atkvæði um nöfnin tvö á fundi skipulagsráð og varð Skógargata ofaná með fjórum atkvæðum gegn einu.

Gatan fær því nafnið Skógargata. Skipulagsráð þakkar nemendum Naustaskóla fyrir framlagðar tillögur.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan