Nýtt ár boðar breytingar og ný tækifæri

Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, óskar lesendum gleðilegrar hátíðar og farsæls komandi árs með þökk fyrir vel unnin störf og kraftmikla samstöðu á árinu sem er að líða.

Gleðilega hátíð,

Hvað boðar nýárs blessuð sól? spurði skáldið okkar séra Matthías og ég trúi að hún boði okkur betri tíð og miklar breytingar. Við vonumst til að á næsta ári vinnist sigur í baráttunni við kórónuveiruna, losað verði um höftin og við njótum frelsis á nýjan leik. Nýtt ár gefur væntingar um ný tækifæri, sigur og fögnuð.

Árið 2020 var okkur ákaflega erfitt. Alheimskreppa blasir við vegna pestarinnar en þegar ég lít yfir farinn veg í starfsemi sveitarfélagsins þá undrast ég hversu miklu var engu að síður komið í verk, hversu mikið við lærðum af þrengingunum og hversu vel okkur hefur miðað áfram þrátt fyrir aðstæður sem eiga sér varla nokkra hliðstæðu.

***

Vegna þess hvernig málin þróuðust snemma árs 2020 í baráttunni við vágestinn mikla, Covid-19, sneru bæjarfulltrúar á Akureyri bökum saman og unnu sem einn maður. Á haustdögum var ákveðið að stíga skrefið til fulls og mynda einn stóran meirihluta, eina breiðfylkingu bæjarfulltrúa, og það hefur gengið vel. Þannig hafa kjörnir fulltrúar sýnt mikla ábyrgð á flóknum tímum.

Bæjarsjóður stendur frammi fyrir meira tekjufalli en áður hefur þekkst en menn láta ekki neinn bilbug á sér finna, hafa ráðist í ýmsar aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu og treyst enn frekar stoðirnar undir nauðsynlega þjónustu sveitarfélagsins. Seinni hluta ársins var raunsæ fjárhagsáætlun fyrir árin 2021-2024 unnin í afar þröngri stöðu en þar er gert er ráð fyrir að fjárhagur sveitarfélagsins komist aftur á réttan kjöl innan örfárra ára. Það mun takast! Sem betur fer er sveitarfélagið lítið skuldsett og reksturinn tryggur þó svo að hann sé þungur. Því allt bendir til þess að næstu ár verði erfið þar sem sérfræðingar álíta að einhver dýpsta kreppa allra tíma gangi yfir efnahagskerfi heimsins í kjölfar Covid-19.

Það tjón sem faraldurinn hefur valdið verður varla mælt í krónum eða aurum. Ljóst er að margt mun breytast í náinni framtíð. Þær búsifjar sem þjóðir heims hafa orðið fyrir af völdum Covid-19 kalla á breytingar. Þegar öllu er á botninn hvolft þá verða þær breytingar vonandi til góðs. Stundum er sagt að til séu tvenns konar fyrirtæki; þau sem taka breytingum og hin sem hverfa. Það sama á að mínu mati við um sveitarfélögin. Þau þurfa að þróast og breytast.

***

Um jólin las ég nýja bók um spænsku veikina sem Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur hefur ritað. Það er mikil harmsaga um mannskæðustu farsótt 20. aldar sem barst hingað til lands árið 1918 og lagði um 500 Íslendinga að velli. Þá bjuggu hér á landi vel innan við 100.000 manns og blóðtakan var því mikil. Við lestur bókarinnar reikaði hugurinn óhjákvæmilega að samanburði á annars vegar þeim óskunda sem Covid-19 hefur valdið á Íslandi árið 2020 og hins vegar þeim hörmungum sem spænska veikin kallaði yfir þjóðina ríflega 100 árum fyrr. Þar er ólíku saman að jafna.

Árið 1918 voru aðstæður fólks allt aðrar en nú er. Húsakostur var yfirleitt frumstæður, heilbrigðisþjónusta lítil sem engin, atvinnuöryggi stopult, atvinnulífið fábreytt, samgöngur slakar og öll fjarskipti í skötulíki. Allt starf manna lamaðist hreinlega á þeim svæðum þar sem spænska veikin herjaði hvað grimmilegast, til að mynda í Reykjavík og á Suðurnesjum. Tæknin sem við búum að nú árið 2020 hefur hins vegar gert okkur kleift að halda stærstum hluta þjóðarbúsins gangandi þrátt fyrir ýmsar hömlur og takmarkanir, og heilbrigðiskerfið hefur bjargað ótal mannslífum með nútíma læknavísindi að vopni.

Háþróuð tækni og stafræn samskipti af ýmsum toga hafa því í vissum skilningi verið sómi okkar, sverð og skjöldur í baráttunni við Covid-19 og komið í veg fyrir að veiran lamaði allt okkar starf. Enda má undrum sæta hversu miklu við höfum áorkað árið 2020 þrátt fyrir að heimsfaraldurinn héldi okkur í heljargreipum. Og ekki má heldur gleyma því að vísindin hafa enn og aftur sannað gildi sitt með því að þróa ný bóluefni gegn veirunni á skemmri tíma en áður hefur þekkst.

Eitt af því sem Covid-19 faraldurinn hefur þannig kennt okkur er að fagna öllum breytingum til betri vegar, allri framþróun, og nýta betur þá tækni sem við búum yfir nú til dags. Okkur hefur orðið betur ljóst mikilvægi stafrænna lausna í rekstri nútíma samfélags og nú eru fjarfundir til að mynda daglegt brauð en með þeim sparast bæði tími og fé.

Það er í mínum huga ljóst að sveitarfélag sem vill skara fram úr verður á allra næstu árum að vera óhrætt við að taka breytingum og þróa hratt og til hins ýtrasta tæknilegar lausnir í stafrænum veruleika. Þannig sveitarfélag er Akureyrarbær. Þannig sveitarfélag viljum við vera.

***

Á þessu ári hefur okkur þrátt fyrir allt tekist að halda uppi öflugu þjónustustigi við íbúa sveitarfélagsins og við höfum fremur sótt í okkur veðrið en látið undan síga. Nýr búsetukjarni fyrir fatlað fólk var opnaður í Klettaborgum, fram fór vígsla á nýrri brú yfir Eyjafjarðará sem ætluð er útivistarfólki, skipulag í nýju Holtahverfi hefur verið kynnt, Akureyrarbær hefur hlotið viðurkenningu UNICEF sem fyrsta Barnvæna sveitarfélagið á Íslandi og hafnar eru framkvæmdir við nýtt hús siglingaklúbbsins Nökkva og framkvæmdum við ný hafnarmannvirki á Tangabryggju er að ljúka.

Endurnýjun á húsnæði Lundarskóla miðar vel áfram og sömuleiðis byggingu nýja leikskólans Klappa á lóð Glerárskóla. Fyrirhugaðar eru framkvæmdir við Ráðhús Akureyrarbæjar sem munu gera okkur kleift að sameina alla stjórnsýslu sveitarfélagsins undir eitt þak en það mun spara okkur umtalsverðar fjárhæðir á hverju ári þegar fram líða stundir. Loks má geta þess að frá og með haustinu 2021 verður nýbökuðum foreldrum í fyrsta sinn boðin leikskólavist fyrir börn sín frá 12 mánaða aldri.

Hér er fátt eitt nefnt af framfararmálum sem unnið hefur verið að á árinu 2020 og á sjóndeildarhringnum blasa við jafnvel enn stærri verkefni sem unnin eru í samstarfi við ríkið, svo sem uppbygging á Akureyrarflugvelli, tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri og stækkun Sjúkrahússins á Akureyri.

Og eftir langar og erfiðar samningaviðræður er nú loksins að fullu ljóst að rekstur Öldrunarheimila Akureyrar flyst til ríkisins á vormánuðum en það léttir þungri fjárhagslegri byrði af sveitarfélaginu. Í öllum viðræðum okkar við ríkisvaldið höfum við búið svo um hnútana að tryggt sé að þessari mikilvægu þjónustu verði sinnt í takt við tímann og í samræmi við kröfur dagsins í dag þar sem öldruðum er gert kleift að búa sem lengst heima hjá sér en njóta um leið fyrsta flokks þjónustu eftir þörfum hvers og eins.

***

Það er gott að búa á Akureyri. Í mínum huga hefur það komið sérstaklega vel í ljós á tímum Covid-19 að það er hvergi betra að vera, hvergi frekar en á Íslandi vildi ég vera þegar heimsfaraldur herjar á mannkyn.

Bærinn breytist ört og stækkar. Íbúar sveitarfélagsins hafa aldrei verið fleiri og ég finn af samtölum mínum við fólk víða um land að hingað vill fólk flytja, hér vill það leggja gjörva hönd á plóg og vinna saman að framfaramálum til hagsbóta fyrir alla. Uppbygging á nýju skipulagi miðbæjarins er að komast á rekspöl og í því felast mikil tækifæri. Bæði einstaklingar og fyrirtæki sýna lausum lóðum mikinn áhuga og vilja fjárfesta á Akureyri.

Að lokum vil ég þakka bæjarbúum og landsmönnum öllum fyrir öfluga samstöðu á árinu sem er að líða. Enn og aftur höfum við sýnt og sannað að með samtakamætti getum við sigrað flestar þrautir og komist í gegnum erfiðleikana. Munum að hugsa hlýtt til þeirra sem syrgja ástvini um þessi áramót, hugsum til þeirra sem eiga um sárt að binda og sendum einkum og sér í lagi vinum okkar á Seyðisfirði hlýjar kveðjur í því mótlæti sem þeir hafa mætt í þeim hamförum sem gengu yfir bæinn fagra.

Þrátt fyrir hremmingar ársins 2020 er bjart fram undan og ég veit að nýárs blessuð sól boðar okkur miklar og heillavænlegar breytingar.

Ég óska ykkur öllum velfarnaðar og hamingju á nýju ári.

Ásthildur Sturludóttir,
bæjarstjóri á Akureyri

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan