Nýr þjónustukjarni rís í Klettaborg

Húsið verður samtals tæpir 600 fermetrar.
Húsið verður samtals tæpir 600 fermetrar.

Framkvæmdum við nýjan sex íbúða þjónustukjarna fyrir fatlað fólk í Klettaborg miðar vel. Vonast er til að hann verði tekinn í notkun í júní. Með tilkomu þjónustukjarnans gjörbreytist aðstaða íbúa og starfsfólks til hins betra.

Margir hafa eflaust tekið eftir framkvæmdum á horni Klettaborgar og Dalsbrautar. Þar er verið að byggja hús sem verður brátt heimili sex einstaklinga sem þurfa, vegna fötlunar sinnar, aðstoð við daglegar athafnir. 

Áætluð verklok í byrjun sumars

„Það er búið að steypa allt saman og nú er verið að slá undan loftaplötum. Svo kemur að því að klæða veggina að utan, setja upp glugga og svo framvegis. Þetta er töluvert hús, tæpir 600 fermetrar,“ segir Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar.

Andri segir að verkið sé um það bil hálfnað og vonast sé til að íbúar flytji inn í júní á næsta ári. „Það er þörf fyrir bætta aðstöðu hjá mörgum af skjólstæðum bæjarins. Hér verður mjög gott aðgengi og góð þjónusta,“ segir Andri.

Herbergjasambýli heyra brátt sögunni til

Kristinn Már Torfason, forstöðumaður á búsetusviði, segir að byggingin sé liður í stefnu um að leggja niður hefðbundin herbergjasambýli en veita þess í stað einstaklingsmiðaða þjónustu með áherslu á sjálfstæða búsetu. „Efnahagshrunið seinkaði þessum áætlunum nokkuð, en segja má að með tilkomu þessa nýja kjarna séum við að leggja af síðasta herbergjasambýlið á Akureyri. Enn eru tvö heimili eftir, sérhannaðar byggingar, sem skilgreina má sem sambýli en þau eru með stærri herberjum og í einhverjum tilfellum eldunaraðstöðu,“ segir Kristinn.

Stórbætt aðstaða íbúa og starfsfólks

Hann segir að þetta verði jákvæð breyting. „Sem dæmi eru einhverjir íbúar í fyrsta sinn að fá sína eigin íbúð. Flestir hafa alla tíð búið við þröngan kost húsnæðislega séð og þeirra einkarými verið 8-12 fermetra herbergi. Möguleikinn á einkalífi gjörbreytist en engu að síður verða ýmsir möguleikar á samveru og félagslífi bæði á heimili hvers og eins auk sameiginlegs rýmis,“ segir Kristinn.

„Aðstaða fyrir starfsfólk breytist einnig úr því að hafa lítið sem ekkert rými yfir í að geta sest niður í hléum án þess að vera inni í einkarými íbúanna. Lögð verður mikil áhersla á nýtingu velferðartækni þar sem hægt er, enda er mikil þróun og framfarir í þeim geira um þessar mundir,“ segir Kristinn.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan