Nýr slökkvibíll til Akureyrar

Slökkvilið Akureyrar hefur fengið afhenta nýja og glæsilega slökkvibifreið sem er sérstaklega hönnuð fyrir björgunar- og slökkvistarf í jarðgöngum.

Bíllinn er af gerðinni IVECO og er fjórhjóladrifinn, sjálfskiptur, með slökkvikerfi sem skilar 1.300 lítrum á mínútu, klippubúnað og fimm reykköfunartæki svo það helsta sé nefnt. Þar að auki, og það sem gerir þennan bíl sérstakan, er mónitor á framstuðara, hitamyndavél og 2.700 lítra loftbanki fyrir slökkviliðsmenn sem auðveldar til muna slökkvistarf í jarðgöngum.

Þrátt fyrir góðan búnað er bíllinn mun minni, léttari og meðfærilegri en flestar slökkvibifreiðar og er á einföldum dekkjum allan hringinn. Brunavarnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar keyptu sams konar bíl, en slökkviliðin hafa aukið samstarf eftir opnun Vaðlaheiðarganga. „Þetta eru fyrstu bílarnir á Íslandi sem eru svona útbúnir," segir Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri.

„Ef við þurfum að fara inn í jarðgöng og það er reykur þá getum við keyrt áfram og í gegnum reykinn án þess að setja slökkviliðsmenn í of mikla hættu. Þeir anda að sér lofti úr loftbankanum og eiga þá til vara birgðirnar á bakinu," segir Ólafur. Hitamyndavélin auðveldar sömuleiðis akstur í miklum reyk og í lélegu skyggni. „Svo er mónítor framan á stuðaranum þannig að bílstjórinn getur hafið slökkvistarf á meðan áhöfnin er að gera sig klára. Um leið og komið er á staðinn er hægt að byrja að sprauta," segir Ólafur.

Nú tekur við þjálfun starfsmanna á þessa flottu bifreið og er vonast til að hægt verði að taka hana í notkun á næstu vikum.
Ólafur segir að bíllinn sé frábær viðbót í flotann. „Þessi bíll kemur vafalaust til með að nýtast vel í mörgum framtíðarverkefnum slökkviliðsins."

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan