Nýr samningur um raforkukaup

Pétur Ólafsson hafnarstjóri, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Andri Teitsson framkvæmdastjóri F…
Pétur Ólafsson hafnarstjóri, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Andri Teitsson framkvæmdastjóri Fallorku.

Í dag var undirritaður samningur við Fallorku um raforkukaup Akureyrarbæjar og Hafnasamlags Norðurlands. Samningurinn er gerður að loknu örútboði á grundvelli rammasamnings Ríkiskaupa en þar bauð Fallorka lægst af 5 bjóðendum. Er þetta fyrsta útboð á raforku sem Akureyrarbær stendur að en áður var raforkan keypt af Fallorku og þar áður af Norðurorku.

Samningurinn er til þriggja ára, gildir frá 1. júlí 2020 til og með 30. júní 2023. Árleg raforkukaup eru áætluð um 14 milljónir kwst.

Fallorka skal, samkvæmt samningnum, veita endurgjaldslausa ráðgjöf um orkunotkun a.m.k. einu sinni á ári, gera gögn um raforkunotkun aðgengileg kaupendum til notkunar og úrvinnslu, og afhenda árlega áætlun um notkun og kostnað vegna raforkukaupa.

Fallorka rekur fjórar vatnsaflsvirkjanir við Eyjafjörð. Félagið er í eigu Norðurorku sem aftur er í eigu Akureyrarbæjar og fimm nágrannasveitarfélaga. „Við erum mjög ánægð með tilboð Fallorku og þennan nýja samning. Það er gott að þessi viðskipti haldist áfram í heimabyggð,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

Andri Teitsson, framkvæmdastjóri Fallorku, tekur í sama streng. „Ég er mjög ánægður með að við getum boðið Akureyrarbæ og Hafnasamlaginu hagstætt verð fyrir raforku til næstu þriggja ára. Það byggist meðal annars á því að rekstur hinnar nýju Glerárvirkjunar gengur vel og gerir okkur kleift að bjóða örugga afhendingu á raforku á Eyjafjarðarsvæðinu,“ segir Andri

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan