Nýr metanstrætó til bæjarins

Boðið var í stuttan reynsluakstur á nýja vagninum í gær. Fremst sitja Andri Teitsson formaður umhver…
Boðið var í stuttan reynsluakstur á nýja vagninum í gær. Fremst sitja Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs og við hlið hans situr Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar.

Í gær fékk Akureyrarbær formlega afhentan þriðja og síðasta metanstrætisvagninn sem sveitarfélagið kaupir samkvæmt samningi frá 2017. Vagninn er af gerðinni Scania en fyrir eru tveir slíkir vagnar í akstri á Akureyri sem reynst hafa ljómandi vel.

Bæjarfulltrúum og starfsfólki umhverfis- og mannvirkjasviðs var boðið í stuttan reynsluakstur á vagninum og var meðal annars gerður stuttur stans í nýju útibúi umboðsaðila Scania á Íslandi, Kletts, að Hjalteyrargötu 8.

Leiðakerfi Strætisvagna Akureyrar byggir á fjórum vögnum sem aka samtímis og þrír þeirra ganga nú fyrir metani. SVA rekur einnig ferliþjónustu fyrir fatlaða og þar eru í notkun sex ferliþjónustubifreiðar en fjórar þeirra ganga fyrir metani og er ætlunin að bæta einum metanbíl við á þessu ári.

Kaupin á metanvögnunum eru eitt af mörgum skrefum sem sveitarfélagið stígur til að ná því markmiði bæjarstjórnar Akureyrar að gera Akureyri að kolefnishlutlausu samfélagi. Bærinn leggur á það áherslu að bílafloti hans verði smám saman allur knúinn endurnýtanlegum eða umhverfisvænum orkugjöfum.

Akureyrarbær er eina sveitarfélagið á Íslandi sem býður öllum frítt í strætó allan ársins hring og hefur svo verið síðan 1. janúar 2007.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan