Nýr menningarsamningur undirritaður

Lilja og Eiríkur við undirritun samningsins úti fyrir Amtsbókasafninu á Akureyri í blíðunni í dag.
Lilja og Eiríkur við undirritun samningsins úti fyrir Amtsbókasafninu á Akureyri í blíðunni í dag.

Í dag undirrituðu Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri og Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra nýjan samning ráðuneytisins og Akureyrarbæjar um framlag ríkisvaldsins til menningarmála í bænum til næstu þriggja ára.

Meginmarkmið samningsins er að efla hlutverk Akureyrar í lista- og menningarlífi á Íslandi. 

Með stuðningi ríkisins við atvinnustofnanir á sviði leiklistar, myndlistar og tónlistar er Akureyri efld sem þungamiðja öflugs menningarstarfs utan höfuðborgarsvæðisins og atvinnumennsku á sviði lista. Styrkja á þá innviði sem felast í öflugu menningarstarfi og fjölbreyttum menningarkostum fyrir íbúa og listafólk.

Ríki og bær leggja þannig sín lóð á þær vogarskálar að efla búsetukosti á Norður- og Austurlandi.

Stuðningur ríkisins beinist að eftirtöldum meginverkefnum samningsins:

  • Starfsemi atvinnuleikhúss undir merkjum Leikfélags Akureyrar.
  • Starfsemi sinfóníuhljómsveitar undir merkjum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.
  • Efla Menningarhúsið Hof sem vettvang sviðslista og tónlistar.
  • Starfsemi Listasafnsins á Akureyri.

Heildarskuldbinding samningsins er 599.747.000 kr. á samningstímanum. Framlag ráðuneytisins er 195.000.000 kr. árið 2018. Framlagið hækkar árið 2019 og verður 199.875.000 kr. og árið 2020 verður framlagið 204.872.000 kr.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan