Nýir stígar marka tímamót

Framkvæmdir við göngustíg meðfram Hörgárbraut. Mynd: Þorgeir Baldursson.
Framkvæmdir við göngustíg meðfram Hörgárbraut. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Framkvæmdir eru hafnar við nýjan göngustíg meðfram Hörgárbraut, frá Hlíðarbraut og suður að Hraunholti. Með þessum nýja tengistíg verður hægt að fara í gegnum bæinn, milli Krossanesborga og Akureyrarflugvallar, svo til beina leið á gangstéttum og stígum.

Nýi stígurinn verður um 320 metra langur og þriggja metra breiður. Framkvæmdir sem eru í höndum Nesbræðra hófust í síðustu viku. Í þessum áfanga felst jarðvegsskipting, að setja ljósastaura og undirstöður fyrir girðingu. Vegna hugsanlegs jarðsigs var ákveðið að malbika og ljúka frágangi sumarið 2021.

Meðan á vinnunni stendur gætu orðið smávægilegar truflanir á umferð, einkum þegar innkeyrsla að bensínstöð verður þveruð með upphækkun og þá verður einungis hægt að komast inn á planið frá Hlíðarbraut. Einnig má búast við truflunum á umferð þegar stærri bílar athafna sig á Hörgárbrautinni, en þessi röskun verður í lágmarki og varir í stuttan tíma í einu.

Um leið og þessari vinnu lýkur verður hafist handa við nýjan stofnstíg í Sjafnargötu og að mörkum Akureyrarbæjar og Hörgársveitar. Þetta eru tímamótaframkvæmdir, því með nýju leiðinni tengjast sveitarfélögin Hörgársveit og Eyjarfjarðarsveit með stígum í gegnum Akureyri, tæplega 9 kílómetra leið. Verklok á þessu ári eru áætluð 15. október en eins og áður sagði verður lokafrágangur næsta sumar.

Akureyrarbær leggur mikla áherslu á umhverfisvænar samgöngur og að byggja upp góða innviði fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Bæjarstjórn samþykkti í gær að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi sem varðar nýtt stígakerfi. Markmiðið með tillögunni er að byggja upp skilvirkt, öruggt og aðlaðandi stígakerfi sem gerir íbúum kleift að sinna vinnu, daglegum erindum og frístundum allt árið um kring. Í skipulaginu er meðal annars gert ráð fyrir auknum aðskilnaði gangandi og hjólandi umferðar með uppbyggingu á nýjum stofnstígum og endurbótum á þeim sem fyrir eru. Hér eru nánari upplýsingar um stígaskipulagið. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan