Nýir samningar við Golfklúbb Akureyrar

Frá undirritun samninganna. Steindór Kr. Ragnarsson framkvæmdastjóri GA, Ásthildur Sturludóttir bæja…
Frá undirritun samninganna. Steindór Kr. Ragnarsson framkvæmdastjóri GA, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri, Bjarni Þórhallsson formaður GA, Ellert Örn Erlingsson deildarstjóri íþróttadeildar Akureyrarbæjar.

Á dögunum var skrifað undir nýja samninga milli Akureyrarbæjar og Golfklúbbs Akureyrar (GA) sem gilda til ársins 2023. Þetta eru annars vegar rekstrarsamningur og hins vegar þjónustusamningur.

Í rekstrarsamningnum er kveðið á um að GA reki og sjái um golfvöllinn að Jaðri, auk þess að annast þjónustu við almenning, æfingar og mót.

Þjónustusamningur við aðildarfélög ÍBA er nýr af nálinni og er markmiðið að stuðla að enn betra og faglegra starfi innan félaganna. Öll börn og ungmenni eigi þannig kost á að iðka heilbrigt og metnaðarfullt íþrótta- og tómstundastarf óháð efnahag fjölskyldna.

Auk þess að veita þjónustu í formi skipulagðrar íþróttaþjálfunar lýsa félögin sig tilbúin til samstarfs um rekstur íþróttaskóla fyrir börn í 1.-4. bekk grunnskóla.

Loks er kveðið á um að félögin skuli starfa í samræmi við stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um íþróttir barna og unglinga, uppfylli jafnréttisstefnu og forvarnarstefnu sveitarfélagsins auk þess að uppfylla aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Þá skulu íþróttafélög með þjónustusamning við Akureyrarbæ bjóða upp á faglegt starf sem tekur mið af grunnþáttum barnvænna sveitarfélaga.

Áður hafði verið skrifað undir sambærilega rekstrar- og þjónustusamninga við Hestamannafélagið Létti, Íþróttafélagið Þór, Knattspyrnufélag Akureyrar, Skautafélag Akureyrar, sem og þjónustusamning við Fimleikafélag Akureyrar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan