Ný útsýnisskífa á Ytri-Súlu

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, vígði á mánudag nýja útsýnisskífu á Ytri-Súlu, ofan Akureyrar. Ferðafélag Akureyrar stóð fyrir uppsetningu skífunnar og er markmiðið að fræða göngugarpa um nágrennið.

Útsýnisskífan bendir á 47 fjöll og kennileiti sem sjást af tindinum. Þar eru einnig hagnýtar upplýsingar, til dæmis um hæð fjalla og vegalengdir.

Ytri-Súla er 1.144 metrar á hæð, en eilítið sunnar er Syðri-Súla sem er um 70 metrum hærri. Jafnan er mikil umferð göngufólks upp á Súlur. Á síðasta ári skrifuðu 1.446 manns í gestabók á toppnum, þar af tæpur helmingur útlendingar.

Ferðafélag Akureyrar stikaði fyrst gönguleið upp á tindana árið 1991 og hefur síðan haldið henni við. Algengt er að gangan taki um fimm til sex klukkustundir upp og niður.

Það var ekki einfalt að koma útsýnisskífunni og undirstöðu á toppinn. Hún var flutt upp í þremur hlutum á vélsleða um síðustu páska.

Bæjarstjórinn kleif fjallið á mánudag, ásamt nokkrum úr ferðafélaginu, og afhjúpaði skífuna glæsilegu. Það var vel við hæfi, enda almennt talað um Súlur sem bæjarfjall Akureyrar. 

Akureyrarbær styrkti uppsetningu útsýnisskífunnar. Kemur hún vafalaust til með að bæta enn frekar upplifun þeirra sem fjallið sækja og vekja athygli á fjölbreyttum útivistarmöguleikum allt í kringum Akureyri.

Ásthildur Sturludóttir og útsýnisskífan

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan