Ný umferðarlög hafa tekið gildi

Nú er lögbrot að fleygja rusli úr bílum.
Nú er lögbrot að fleygja rusli úr bílum.

Ný umferðarlög tóku gildi þann 1. janúar síðastliðinn. Lögin hafa í för með sér ýmsar breytingar sem er mikilvægt að vegfarendur á Akureyri og annars staðar hafi í huga. 

Samgöngustofa hefur tekið saman helstu nýmæli laganna á aðgengilegan hátt, sem Akureyringar eru hvattir til að kynna sér. Til glöggvunar eru hér nokkur dæmi um helstu nýmæli laganna sem getur jafnvel reynt á daglega: 

Bannað að henda rusli. Í lögunum er lagt bann við því að fleygja sorpi út úr ökutæki eða skilja eftir á vegi sorp eða annað sem óhreinkar veg eða náttúru, jafnvel þótt það hafi ekki í för með sér hættu eða óþægindi fyrir aðra vegfarendur. Samkvæmt eldri lögum var aðeins bannað að henda rusli ef það hafði í för með sér hættu eða óþægindi. 

Ökuljós kveikt að framan og aftan. Í lögunum eru ákvæði um lögboðin ökuljós gerð skýrari. Þau skulu ávallt vera kveikt, bæði að framan og aftan óháð aðstæðum. Ef ljós kvikna ekki sjálfkrafa þarf að kveikja á þeim.

Skýrt bann við notkun snjalltækja á hjóli og við akstur. Í lögunum eru ákvæði er varða bann við notkun allra snjalltækja, jafnt fyrir ökumenn vélknúinna ökutækja og fyrir hjólreiðafólk. Óheimilt er að nota farsíma, snjalltæki eða önnur raftæki sem truflað geta akstur, án handfrjáls búnaðar. Þetta á líka við um leiðsögutæki.

Hliðarbil ökutækja frá hjólreiðafólki. Þegar ekið er fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli skal hliðarbil vera að lágmarki 1,5 metrar. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan