Ný skýrsla um fuglalíf við Hundatjörn í Naustaflóa

Skúfandarhreiður í Naustaflóa vorið 2020. Ljósmynd: Sverrir Thorstensen.
Skúfandarhreiður í Naustaflóa vorið 2020. Ljósmynd: Sverrir Thorstensen.

Akureyrarbær hefur reglulega látið vakta fuglalíf í Naustaflóa frá árinu 2008 og í vor var svæðið vaktað í áttunda sinn. Tilgangurinn með úttektinni er að fylgjast vel með framvindu fuglalífs á svæðinu eftir að Hundatjörn og votlendið var endurheimt með stíflugerð sumarið 2007.

Ný skýrsla með niðurstöðum þessa árs liggur fyrir og er hægt að nálgast hana hér.

Talningin fór fram 30. maí og gaf að mestu leyti sömu niðurstöðu og síðasta úttekt 2018. Alls fundust 12 tegundir varpfugla. Það er fækkun um fjórar tegundir frá síðustu talningu, en rauðhöfðaönd, spói, þúfutittlingur og auðnutittlingur verptu ekki á svæðinu í ár. Álftin verpti á svæðinu annað árið í röð og grágæs í fyrsta skiptið frá 2008. Fjöldi varppara var 118 sem er fjölgun um fjögur pör frá 2018. 

Í skýrslunni kemur fram að fuglalífið í Naustaflóa sé í góðu jafnvægi, þótt örlitlar breytingar séu alltaf á milli talninga. Flóinn var óvenju blautur eftir snjóþungan vetur og líklegt er talið líklegt að það hafi fælt heiðlóu, spóa og þúfutittling frá svæðinu. Trjágróður er í miklum vexti, bæði í jöðrum sunnan Hundatjarnar og norðan skýlisins. Syðsti hlutinn þornar enn og þar er áberandi minna varp en annars staðar á svæðinu.

Sérfræðingar sem unnu skýrsluna telja mikilvægt að fylgjast með útbreiðslu lúpínu á svæðinu og bregðast strax við til að hindra framgang hennar. Naustaflói er gott dæmi um endurheimt votlendis og þar af leiðandi er mjög áhugavert að fylgjast reglulega með þróun fuglalífs á svæðinu.

Eldri talningar ásamt fleiri skýrslum um umhverfismál má finna hér.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan