Ný skýrsla: Brúum bilið

Starfshópurinn leggur til að byggður verði nýr leikskóli við Lundarsel/Lundarskóla á næstu árum.
Starfshópurinn leggur til að byggður verði nýr leikskóli við Lundarsel/Lundarskóla á næstu árum.

Haustið 2021 er talið að öll börn á Akureyri komist í leikskóla við 12 mánaða aldur eða geti nýtt sér aðrar fjölbreyttar leiðir. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps um leiðir til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þrjár sviðsmyndir um fjölgun leikskólarýma eru settar fram og er einnig lagt til að auka niðurgreiðslur vegna daggæslu í heimahúsum, kanna möguleikann á að innrita börn í leikskóla oftar yfir árið og leita leiða til að bæta starfsaðstæður barna og starfsfólks.

Stefna allra flokka í bæjarstjórn er með einu eða öðru móti að öllum börnum eldri en 12 mánaða standi til boða leikskólavist eða annað úrræði er fæðingarorlofi lýkur. Starfshópurinn var settur á laggirnar í janúar 2019, skipaður fulltrúum frá meiri- og minnihluta ásamt starfsfólki fræðslusviðs. Hópurinn leitaði einnig ráðgjafar og var í nánu samstarfi við fagráð skólastjóra.

Verkefnið var að finna fjölbreyttar leiðir til að brúa bilið, kortleggja fjölda leikskólarýma og möguleika til að fjölga þeim, meta aðstæður starfsfólks og námsumhverfi barna, kanna svigrúm til að útbúa ungbarnadeildir innan leikskóla eða leikskóladeildir innan grunnskóla. Þá var lagt mat á húsnæðismál leikskóla og framtíðarsýn mótuð um uppbyggingu, auk þess að kanna frekari niðurgreiðslur til foreldra með börn í daggæslu.

Skýrslan er aðgengileg hér.

Þrjár sviðsmyndir

Viðmið um innritun barna á leikskóla á Akureyri hefur hingað til verið við 18 mánaða aldur að hausti. Nú í haust var 16 mánaða börnum boðin leikskólavist. Haustið 2021, þegar leikskólinn Klappir við Glerárskóla á að hefja starfsemi, er fyrirhugað að börn 12 mánaða og eldri fái boð um leikskólavist, að því er fram kemur í skýrslunni.

Hópurinn leggur fram þrjár tillögur að sviðsmyndum við fjölgun leikskólarýma í bænum, byggðar á mismunandi forsendum um fjölgun íbúa. Allar gera ráð fyrir að Klappir, nýr leikskóli við Glerárskóla, taki til starfa haustið 2021 og fjölgi þar með plássum í bænum um 90. Jafnframt er tekið tillit til Árholts, ungbarnaleikskóla í Hlíðarhverfi, sem tók nýlega til starfa með rými fyrir 24 börn.

Sviðsmynd 1
Sviðsmyndin byggir á því að jafnvægi verði í fjölda aðfluttra og brottfluttra barna á leikskólaaldri. Lagt er til að þegar Klappir verði tekinn í notkun 2021, með 144 rýmum, verði efra húsið í Pálmholti tekið úr notkun en þar eru 42 rými í dag. Horft er til stækkunar Naustatjarnar um allt að 40 rými, auk þess sem gert er ráð fyrir uppbyggingu á nýjum leikskóla við Lundarsel/Lundarskóla sem fjölgar rýmum úr 90 í 144 árið 2024. Samningur vegna Krógabóls rennur út 2026 og er gert ráð fyrir nýjum leikskóla í hverfinu 2026 eða síðar.

Sviðsmynd 2
Sviðsmyndin byggir á því að aðfluttum börnum á leikskólaaldri fjölgi um allt að 50 umfram brottflutt. Lagt er til að setja létta byggingu við Pálmholt, með allt að 20 rýmum, enda eru aðstæður til stækkunar góðar. Í stað stækkunar Naustatjarnar er horft til þess að byggja nýjan leikskóla í Hagahverfi sem væri hægt að stækka í áföngum, upp í 60 rými. Að öðru leyti eru tillögur þær sömu og í sviðsmynd 1.

Sviðsmynd 3
Sviðsmyndin byggir á því að aðfluttum börnum á leikskólaaldri fjölgi um allt að 100 umfram brottflutt. Eini munurinn á sviðsmynd 2 og 3 er að nú er gert ráð fyrir fleiri rýmum í nýjum leikskóla í Hagahverfi, allt að 110, auk þess sem uppbygging skólans er áætluð á styttri tíma.

Ungbarnaleikskólinn Árholt tók til starfa í haust.

Niðurgreiðslur og tíðari innritanir

Nú í haust tóku gildi reglur um auknar niðurgreiðslur til foreldra barna sem hafa náð 16 mánaða aldri og hafa ekki fengið boð um innritun í leikskóla. Er þessum greiðslum ætlað að koma til móts við barnafjölskyldur og minnka mun á kostnaði milli dagvistunar og leikskóla. Starfshópurinn leggur einnig til að hafin verði niðurgreiðsla á áttunda tímanum vegna daggæslu barna í heimahúsum. Áætlað er að niðurgreiðslan komi til framkvæmda í upphafi árs 2020.

Hópurinn telur mikilvægt að kanna möguleika á að innrita börn í leikskóla tvisvar sinnum á ári, ekki bara á haustin eins og nú er gert. Eins stendur til að kanna þann möguleika að hafa þrjár ungbarnadeildir/ungbarnaleikskóla (t.d. neðra hús í Pálmholti, Hulduheimar/Kot og Árholt) sem hver um sig getur innritað börn tvisvar á ári, samtals sex sinnum.

Aðstæður barna og starfsfólks

Hlutfall fagmenntaðra innan leikskóla á Akureyri er hátt og er lykilatriði að halda því. Starfshópurinn undirstrikar mikilvægi þess að huga að skipulagi vinnudags og starfsaðstæðum barna og starsfólks.

Í skýrslunni er lagt til að við byggingu nýrra leikskóla verði sérstaklega horft til þess að auka rými fyrir hvert barn og að leikrými barna í leikskólum Akureyrar verði aukin í skrefum næstu fimm árin.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan