Norðurstrandarleiðin á topp 10 lista Lonely Planet

Arctic Coast Way – Norðurstrandarleið var í dag valin á topp 10 lista yfir þá áfangastaði í Evrópu sem best er að heimsækja, að mati Lonely Planet sem er einn vinsælasti útgefandi ferðahandbóka í heiminum. Þetta er mjög stór áfangi fyrir Norðurland sem setur svæðið svo sannarlega á kortið og ýtir undir vöruþróun og markaðssetningu á því öllu. Markaðsstofa Norðurlands hefur stýrt verkefninu síðustu ár og leitt saman sveitarfélögin á allri leiðinni frá Hvammstanga í vestri að Bakkafirði í austri með þeim árangri að leiðin verður formlega vígð þann 8. júní n.k..

Verkefnið er grasrótarverkefni sem byggir á mikilli vinnu fjölmargra og sýnir vel hvað hægt er að ná góðum árangri með samvinnu þvert á svæði og sveitarfélög. Akureyrarstofa er einn af frumkvöðlum verkefnisins en í ferð starfsmanna hennar til Fáilte Ireland, sem er ferðamálastofnun Írlands, vorið 2015 fengu starfsmenn kynningu á ferðamannaleiðum á Írlandi sem byggðar hafa verið upp með góðum árangri. Þá kviknaði sú hugmynd að mögulega mætti gera svipaða hluti á Norðurlandi. Í kjölfarið sótti Akureyrarstofa ásamt fleiri aðilum um styrk frá Sóknaráætlun Norðurlands Eystra til að koma verkefninu af stað. Í kjölfarið tók svo Markaðsstofan við stjórn þess enda spannar leiðin stærstan hluta af starfssvæði hennar. Ávöxtur vinnunnar hefur nú litið dagsins ljós með þeim ánægjulega hætti sem raun ber vitni.

Með þróun Norðurstrandarleiðar, verður til aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem vilja halda sig utan alfaraleiðar og gera það með því að fara meðfram strandlengju Norðurlands. Samtals er leiðin um 900 kílómetra löng, með 21 bæ eða þorpi og fjórum eyjum sem auðveldlega er að hægt að komast út í með bát eða ferju. Ferðafólk sem fer þessa leið fær tækifæri til að ná betri tengslum við náttúruna, litskrúðugt menningarlíf og einnig hið daglega amstur þeirra sem búa í nálægð við norðurheimskautsbauginn.

Leiðin verður formlega opnuð þann 8. júní næstkomandi, en dagskráin verður kynnt síðar. Sjá einnig FB síðu leiðarinnar.

 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan