Norðurstrandarleið formlega opnuð

Ný skilti sem markar Norðurstrandarleiðina. Mynd: María H. Tryggvadóttir
Ný skilti sem markar Norðurstrandarleiðina. Mynd: María H. Tryggvadóttir

Norðurstrandarleið, eða Arctic Coast Way á ensku, var í dag formlega opnuð á Hvammstanga og Bakkafirði. Leiðin hefur verið í þróun í meira en þrjú ár og því afar ánægjulegt að þessum áfanga hafi verið náð í dag. Sem kunnugt er hefur leiðin þegar vakið mikla athygli erlendis þrátt fyrir að hafa ekki verið formlega opnuð, sem sést best í því að Lonely Planet valdi leiðina sem þriðja besta áfangastað í Evrópu á þessu ári

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, klipptu á borða við afleggjarann inn á Hvammstanga og opnuðu þannig leiðina formlega. Það sama gerðu Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og Árni Bragi Njálsson, fulltrúi sveitarstjórnar Langanesbyggðar við afleggjarann inn á Bakkafjörð.

Við opnunina voru ný skilti vígð, sem marka Norðurstrandarleið og segja ferðamönnum hvenær þeir ferðast eftir henni. Þessi skilti marka þáttaskil í íslenskri ferðaþjónustu, því í fyrsta sinn eru komin upp skilti með brúnum lit. Sá litur er þekktur erlendis fyrir skilti sem tengjast ferðaþjónustu.

Á Akureyri var deginum fagnað í dag sem og á fleiri stöðum á leiðinni. Boðið var upp á sögusiglingu með Húna II, Norðurstrandar Jazz, siglingarklúbburinn Nökkvi og Ventur North kynntu starfsemi sína og gáfu gestum kost á að bregða sér í siglingu, Iðnaðarsafnið var með leiðsögn um sýninguna „Sjómaðurinn og hafið: Akureyrsk útgerð á 20. öld".  Í Hrísey var fjöruhreinsun og grill og tóku heimafólk og erlendir ferðamenn til hendinni og í Grímsey verður m.a. boðið upp á gönguferð norður á bauginn í kvöld.

Heimasíða Norðurstrandarleiðarinnar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan