N4, Snorri Björnsson og Bannað að dæma hljóta jafnréttisviðurkenningar 2021

Fjórða árið í röð veitir frístundaráð Akureyrarbæjar sérstakar viðurkenningar á sviði jafnréttismála. Tilgangurinn er að vekja athygli á störfum í þágu jafnréttis í samræmi við mannréttindastefnu Akureyrarbæjar.

Auglýst var eftir tilnefningum og var ákveðið að veita viðurkenningar í tveimur flokkum, til einstaklings og fyrirtækis. Auk þess var ákveðið að veita einu verkefni sérstök hvatningarverðlaun. Eva Hrund Einarsdóttir formaður frístundaráðs veitti viðurkenningarnar á rafrænni Vorkomu í Listasafninu.

Snorri Björnsson hlýtur jafnréttisviðurkenningu Akureyrarbæjar fyrir kennslu í kynjafræði við VMA. Snorri hefur verið kennari við VMA síðan 2010 og hefur kennt kynjafræði við sama skóla frá árinu 2013. Auk kennsluréttinda, er Snorri með BA próf í bókmenntafræði með nútímafræði sem aukagrein og diplómu í hagnýtri jafnréttisfræði. Í kynjafræðiáfanganum er meðal annars fjallað um sögu jafnréttisbaráttunnar, fjölmiðla og fjölmiðlaumræðu, auglýsingar, kvikmyndir, hinsegin málefni og klámvæðingu.

Snorri fékk á sínum tíma styrk úr Sprotasjóði til þess að þróa áfangann og nemendur hafa tekið þátt í ýmsum verkefnum sem sum hafa ratað út fyrir skólann. Einhverjir hafa skrifað greinar um jafnrétti, en einnig tóku nemendur þátt í ráðstefnu um jafnrétti í skólastarfi vorið 2017. Hátt í 300 nemendur hafa setið valáfangann í kynjafræði hjá Snorra en auk þess er hann virkur talsmaður jafnréttis og því bæði fyrirmynd og hvatning.

N4 hlýtur jafnréttisviðurkenningu Akureyrarbæjar fyrir markvissa vinnu við jafnrétti í fjölmiðlum. Hjá N4 hefur dyggilega verið unnið að jafnréttismálum undanfarin ár. Kynjahlutföll viðmælenda í þáttum og dagskrárgerð hafa verið mæld síðan 2013. Árið 2015 var viðsnúningur þegar tvær konur tóku við sem framkvæmdastjórar og þá var tekin meðvituð ákvörðun um að rétta við kynjahlutfallið í þáttum og sett stefna þar um. Byrjað var á einum þætti sem var á dagskrá fjóra daga vikunnar og aðrir þættir fylgdu í kjölfarið. Síðan þá hefur verið markviss vinna í gangi og eftirfylgni hefur verið stöðug þrátt fyrir að jöfn hlutföll séu orðin hefð og viðtekið vinnulag hjá fjölmiðlinum.

Hnífjafnt kynjahlutfall náðist 2019 og 2020 hjá dagskrárgerðarfólki sem er margt hvert að sinna sínum störfum hjá N4 í verktöku. Auk þess er unnið að jafnrétti á breiðari grunni með því að jafna aldurssamsetningu bæði meðal viðmælenda og starfsmanna og gagngert er unnið að því að gera raddir landsbyggðanna sterkari og áhrifameiri. Það er ljóst að N4 er til fyrirmyndar og vinnur mikilvægt brautryðjendastarf fyrir fjölmiðla á landinu öllu þar sem rannsóknir sýna að fjölbreytni er ábótavant og verulega hallar á konur.

Hlaðvarpsþátturinn Bannað að dæma í umsjón Heiðdísar Austfjörð og Halldórs Kristins Harðarsonar hlýtur hvatningarverðlaun jafnréttimála. Markmiðið með þættinum er að fræðast án þess að dæma og hafa gaman af lífinu. Með ólíkum viðmælendum og skemmtilegri nálgun er þátturinn bæði skemmtun og ekki síst mikilvæg fræðsla um fjölbreyttan veruleika og viðfangsefni, þannig opna þáttastjórnendur umræðuna og minnka líkur á fordómum. „Við erum með hróshorn, stuðlum að jákvæðni og að fólk hjálpist að og standi saman,“ segja Heiðdís og Dóri KÁ umsjónarmenn þáttarins.

  

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan