Mundu að velja Akureyri

Mjög góð reynsla er af nýju bílastæðakerfi á Akureyri og velja um 86% þeirra sem leggja á miðbæjarsvæðinu að nota smáforrit. Helstu mistök sem fólk gerir er að velja í fljótfærni gjaldsvæði í Reykjavík og að skrá ekki rétt bílnúmer í forritið.

Þegar smáforritið er opnað þarf að velja gjaldsvæði og skal þá gæta þess vel að gjaldsvæðið sem valið er sé þar sem bílnum er lagt á Akureyri. Notast er við sömu greiðsluleiðir og margir þekkja frá Reykjavík en því miður kemur höfuðborgin upp sem fyrsti kostur þegar bílnum er lagt og því þarf að gæta þess sérstaklega að velja Akureyri. Innan skamms lítur dagsins ljós ný uppfærsla á smáforritum sem dregur úr líkum á að rangt gjaldsvæði sé valið.

Aðeins hefur borið á því að fólk fái höfnun á kortagreiðslur í stöðumælum. Ástæðan getur verið sú að heimild fyrir fleiri þráðlausum greiðslum sé ekki fyrir hendi á viðkomandi korti. Einnig virðist stundum vera tímabundin truflun á netsambandi en þá dugar ef til vill að bíða skamma stund og reyna aftur.

Fái fólk sekt sem það telur ólögmæta getur það sent inn rafræna athugasemd í gegnum heimasíðu Akureyrarbæjar.

Allar helstu upplýsingar um gjaldskyldu á miðbæjarsvæðinu á Akureyri er að finna á síðu bifreiðastæðasjóðs.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan