Minjasafnið á Akureyri hlaut Íslensku safnaverðlaunin

Starfsfólk og formaður stjórnar Minjasafnsins. Frá vinstri: Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri, Ragna…
Starfsfólk og formaður stjórnar Minjasafnsins. Frá vinstri: Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri, Ragna Gestsdóttir, Sveinn Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Hörður Geirsson og Sigfús Karlsson, formaður stjórnar safnsins.

Í gær, á Alþjóðlega safnadeginum, var tilkynnt að Minjasafnið á Akureyri hlyti Íslensku safnaverðlaunin 2022.

Í umsögn valnefndar segir meðal annars: „Minjasafnið á Akureyri er rótfast í eyfirsku samfélagi og hefur verið það frá stofnun árið 1962. Starfsemi þess er fagleg og fjölþætt. Það hefur sinnt söfnun og varðveislu menningarminja af mikilli alúð, með áherslu á söfnun ljósmynda sem er öflug samfélagslegstenging og samofin öllu starfi safnsins, einkum á síðustu áratugum. Minjasafnið á Akureyri hefur á að skipa mjög hæfu starfsfólki sem af áhuga og metnaði hefur skipað því í fremstu röð minjasafna."

Þá bendir valnefndin á að safnið hafi um árabil staðið mjög vel að fræðslu fyrir öll skólastig og skapað gott samstarf við skóla, uppeldisstofnanir og fleiri stofnanir og haldið fjölda fagnámskeiða fyrir nágrannasöfnin. Safnið hafi tekið virkan þátt í Eyfirska safnaklasanum frá stofnun hans árið 2005 og lagt mikla rækt við samstarf, með áherslu á alla aldurshópa. Minjasafnið á Akureyri er m.a. í samstarfi við Virk, Vinnumálastofnun, Fangelsismálastofnun og Akureyrarbæ.

Í rökstuðningi fyrir tilnefningu safnsins segir: „Það er mat valnefndar að Minjasafnið á Akureyri haldi vel „lifandi“ tengslum milli svæðisbundins menningararfs og samtímans með vel skipulagðri starfsemi og hafi margsýnt hvers samfélagslega rekin minjasöfn eru megnug og mikilvæg þegar þau eru vel mönnuð og vel er haldið utan um þau. Áhersla á samfélagsleg gildi og samstarf við hina ýmsu ólíku hópa og aðila skipar Minjasafninu á Akureyri í hóp fremstu safna á Íslandi í dag.“

Fimm söfn voru tilnefnd til verðlaunanna að þessu sinni en þau eru veitt annað hvert ár og eru samstarfsverkefni Íslandsdeildar ICOM (Alþjóðaráðs safna) og Félags Íslensksra safna og safnamanna.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan