Hátíðarstemning í Hrísey

Myndir: Ásrún Ýr Gestsdóttir
Myndir: Ásrún Ýr Gestsdóttir

Snjó hefur kyngt niður í Hrísey undanfarið og er fallegt um að litast. Líklegast verða færri í eyjunni um jólin í ár en oft áður vegna þess hvernig hátíðin hittir á vikudagana. Von á fleirum um áramótin þar sem orlofshúsagestirnir eru yfirleitt fleiri þá en um jólin.

Þó nokkrir viðburðir verða í boði um hátíðina. Í dag, Þorláksmessu, verður boðið upp á skötuhlaðborð í Verbúðinni sem hefst klukkan 18.00. Á jóladag klukkan 14.00 verður hátíðarguðþjónusta í Hríseyjarkirkju þar sem séra Oddur Bjarni Þorkelsson sóknarprestur þjónar til altaris og séra Magnús G. Guðmundsson leikur á orgelið.
Ungmennafélagið Narfi heldur jólaball fyrir íbúa og gesti annan í jólum klukkan 14.00 og verður boðið upp á vöfflur og kaffi eftir dansinn (enginn aðgangseyrir en tekið er við frjálsum framlögum). Þann 30. desember verður síðan barsvar (pub quiz) í Verbúðinni þar sem hægt verður að kaupa sér pizzu og drykki.

Eins og nefnt er hér fyrir ofan hefur snjóað mikið í Hrísey og því tilvalið að taka með gönguskíði, sleða og snjóþotur þegar haldið er út í eyju. Bara klæða sig vel og halda upp á ey, jafnvel taka með heitt kakó til að njóta við fallega háborðið sem lokið var við að byggja fyrr í mánuðinum.

Á hrisey.is má sjá alla viðburði, afgreiðslutíma og fleira og eru allir jafnt gestir sem heimamenn hvattir til að skoða síðuna.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan