Mikil íbúðauppbygging í kortunum

Naustahverfi og Hagahverfi í syðri hluta bæjarins eru nýjustu hverfi bæjarins.
Naustahverfi og Hagahverfi í syðri hluta bæjarins eru nýjustu hverfi bæjarins.

Á þessu ári er gert ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist við að minnsta kosti 220 nýjar íbúðir á Akureyri á byggingarhæfum lóðum sem þegar hefur verið úthlutað.

Mikill og vaxandi áhugi er á byggingarlóðum sveitarfélagsins og hefur verið góður gangur í úthlutunum undanfarin misseri. Nú stendur til að hefja uppbygginu síðasta áfanga Hagahverfis. Þar hefur 29 lóðum verið úthlutað fyrir um 184 íbúðir í fjölbýlishúsum, raðhúsum og einbýlishúsum en framkvæmdir eru ekki hafnar. Níu einbýlishúsalóðir í hverfinu eru lausar til úthlutunar, raðhúsalóð og lóð fyrir verslun og þjónustu.

Á öðrum svæðum vítt og breitt um bæinn er samkvæmt skipulagi hægt að hefja framkvæmdir við 24 íbúðir um leið og lóðarhafar hafa sótt um byggingarleyfi. Einnig er gert ráð fyrir íbúðum að Austurbrú 10-12 og Hafnarstræti 80 á lóðum sem úthlutað var í lok síðasta árs, en þar er unnið að breytingu á deiliskipulagi og stefnt að uppbyggingu síðar á árinu.

Framkvæmdir hafa að jafnaði hafist við um 131 íbúð á ári síðustu 20 árin og 155 íbúðir síðustu fimm ár. Ef fram fer sem horfir gæti árið 2021 nálgast metárin fyrir efnhagshrunið og árið 2017 þegar framkvæmdir í Hagahverfi hófust. Ætla má að árlega sé þörf fyrir um 130-160 íbúðir á Akureyri, þegar tekið hefur verið tillit til íbúafjölgunar og breyttrar aldurs- og búsetusamsetningar.

Lífleg þróun í skipulags- og byggingamálum hefur leitt til þess að lausum lóðum hefur fækkað hratt síðustu mánuði. Stefnt er að því að bæta þar úr sem allra fyrst. Nú þegar mikilli uppbyggingu í Hagahverfi fer að ljúka er mikilvægt að gera fleiri byggingarlóðir klárar á öðrum svæðum, enda er markmið bæjarins að alltaf séu í boði ákjósanlegar lóðir fyrir íbúða- og atvinnuhúsnæði.

Holtahverfi er næsta stóra uppbyggingarsvæði bæjarins og er gert ráð fyrir allt að 300 íbúðum af ýmsum stærðum og gerðum. Stefnan er að ljúka hönnun á fyrsta áfanga hverfisins í byrjun sumars þannig að hægt verði að auglýsa fyrstu lóðir í lok sumars með það að markmiði að framkvæmdir geti hafist vorið 2022.

Þá er að hefjast skipulagsvinna fyrir Kollugerðishaga, íbúðahverfi vestan Borgarbrautar ofan Giljahverfis, og er vonast til að deiliskipulag verði tilbúið í kringum næstu áramót. Miðað er við að á þessu svæði rísi 600-750 íbúðir. Einnig er skipulagsvinna í fullum gangi á nokkrum þéttingarsvæðum á Akureyri og má til dæmis nefna lóðir við Skarðshlíð og í miðbænum sem vonast er til að hægt verði að úthluta áður en langt um líður. Þó ber að hafa í huga að almennt tekur skipulagsvinna á þéttingarsvæðum lengri tíma en þar sem engin mannvirki eða starfsemi er fyrir.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan