Mikil ánægja með Akureyri

Frá móttöku Akureyrarbæjar á Vestnorden, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri ávarpar gestina.
Frá móttöku Akureyrarbæjar á Vestnorden, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri ávarpar gestina.

Vestnorden ferðakaupstefnan var haldin á Akureyri í síðustu viku. Þetta var í 33. skiptið sem hún er haldin en hún fer árlega fram og hefur mjög mikla þýðingu fyrir ferðamennsku á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Á kaupstefnunni voru rúmlega 600 aðilar skráðir til leiks frá alls 30 löndum, þar af um 370 að sýna og bjóða fram vöru eða þjónustu og hátt í 200 að kynna sér og kaupa það sem í boði er. Um 70 kaupendur voru að koma í fyrsta sinn og blaðamenn og opinberi gestir voru einnig um 70 talsins.

Afar mikil ánægja var meðal kaupenda og seljenda og ekki síst með þá nýbreytni að gestum var boðið upp á ferðir og upplifun í landshlutanum á meðan á kaupstefnunni stóð. Engan bilbug var á aðilum að finna og almenn bjartsýni gagnvart horfum á næsta ári, jafnvel þó óvissa sé meiri en oft áður. Íslandsstofa er framkvæmdaraðili ferðakaupstefnunnar í samstarfi við Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA) og Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu lýsir yfir ánægju með framkvæmdina:

„Það er virkilega ánægjulegt að hafa haldið Vestnorden ferðakaupstefnuna á Akureyri þetta árið. Það var tekið afar vel á móti þessum fjölda gesta og finnum við fyrir mikilli ánægju með alla framkvæmd og móttökur. Það voru líka gríðarleg tækifæri fólgin í því að bjóða erlendum og íslenskum ferðaaðilum upp á ferðir og upplifun á staðnum sem tókst með eindæmum vel. Ferðakaupstefnan hefði sannarlega ekki orðið svona árangursrík nema með mikilli og góðri aðkomu Akureyrarbæjar og ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Við hlökkum til að halda fleiri Vestnorden ferðakaupstefnur á Akureyri í framtíðinni í góðu samstarfi við Akureyrarbæ."

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri segir afar gleðilegt hve vel tókst til: „Ég tel afar mikilvægt að við leggjum okkar lóð á vogarskálarnar til að efla markaðssetningu á ferðaþjónustu hér á Akureyri og Norðurlandi öllu. Hagsmunirnir eru miklir, ekki bara fyrir okkur, heldur fyrir íslenska ferðaþjónustu og yfirvöld ferðaþjónustu sem hafa lengi haft það markmið að erlendir ferðamenn sæki og njóti kosta og upplifunar á landinu öllu. Ég er stolt af því hvernig til tókst að þessu sinni og býð Vestnorden velkomna aftur norður sem fyrst!"

Styrktaraðilar kaupstefnunnar að þessu sinni voru Akureyrabær, Air Iceland Connect og ISAVIA, auk þess sem ferðaþjónustuaðilar á svæðinu buðu gestum upp á skoðunarferðir um Norðurland í samstarfi við Markaðstofu Norðurlands.

Vestnorden ferðakaupstefnan er haldin annað hvert ár á Íslandi og hin árin til skiptis í Færeyjum og Grænlandi. Kaupstefnan var síðast haldin á Akureyri árið 2010 og þar á undan 2002.

Meðfylgjandi eru myndir frá Vestnorden 2018 á Akureyri.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan