Markviss skimun fyrir ofbeldi

Hafdís Erla Jóhannsdóttir og Katrín Árnadóttir kynntu nýtt verklag fyrir starfsfólki fjölskyldusviðs…
Hafdís Erla Jóhannsdóttir og Katrín Árnadóttir kynntu nýtt verklag fyrir starfsfólki fjölskyldusviðs á dögunum.

Nýtt verklag verður brátt tekið upp á fjölskyldusviði sem er ætlað að hjálpa þolendum að greina frá ofbeldi. Markmiðið er að bregðast fyrr við andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi og tryggja viðeigandi þjónustu.

Skipulögð skimun með gátlista

Þetta er einn liður í aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum fyrir tímabilið 2018-2020. Í áætluninni er meðal annars kveðið á um aðgerðir sem tryggja skilvirka nærþjónustu og skýr hlutverk, þar á meðal að innleiða verklag þar sem skimað verði markvisst eftir kynbundnu ofbeldi með notkun gátlista.

Hafdís Erla Jóhannsdóttir og Katrín Árnadóttir, félagsráðgjafar á fjölskyldusviði Akureyrarbæjar, hafa leitt verkefnið og var þeim falið að finna aðferðir og móta verklag fyrir skipulagða skimun. Þær kynntu afraksturinn á dögunum fyrir starfsfólki fjölskyldusviðs.

Nýtt verklag fljótlega eftir áramót

Markmiðið er að aðstoða þolendur ofbeldis að greina frá því svo hægt sé að leiðbeina þeim í viðeigandi úrræði. Með því að skima markvisst fyrir ofbeldi er hægt að grípa fyrr inn í mál, tryggja öryggi fólks og að það fái viðeigandi aðstoð og þjónustu.

Fyrst um sinn byggir skimunin á klínískum leiðbeiningum Landspítala um mat og viðbrögð við ofbeldi í nánum samböndum. Með hjálp gátlista er mögulegt að framkvæma heildstæða skimun fyrir andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Verklagið verður tekið upp fljótlega eftir áramót sem tilraunaverkefni til þriggja mánaða og nær skimunin til allra 18-40 ára sem sækja þjónustu fjölskyldusviðs. Að þeim tíma liðnum verður stöðumat og næstu skref ákveðin.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan