Hvatt til góðra verka til eflingar læsis hjá börnum

Nú á vormisseri hafa grunnskólarnir á Akureyri haldið þrjú málþing um læsi í samstarfi við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri (MSHA) og kennaradeild HA. Hugmyndin á bak við málþingin var að skapa umræðu um læsi grunnskólabarna meðal skólafólks, læra hvert af öðru og hvetja okkur öll til góðra verka til eflingar læsis hjá börnum.

Þátttakendur málþinganna voru stjórnendur grunnskólanna, skólasafnskennarar, kennarar í læsisnefndum skólanna og læsisfræðingar MSHA og HA. Málþingin samanstóðu af erindum úr ýmsum áttum og skipulögðum umræðum í kjölfarið. Erindin tengdust öll þáttum í læsisstefnu Akureyrarbæjar, Læsi er lykillinn og fjölluðu m.a. um lesferilspróf, eflingu áhugahvatar til læsis, forystu varðandi læsi og samstarf heimila og skóla um læsisnám.

Umræður voru miklar í blönduðum hópum og afraksturinn varð fjölbreyttur efniviður til að vinna með í framhaldinu.

Góður málskilningur og ríkulegur orðaforði er mikilvæg forsenda náms og góðra samskipta. Mikilvægt er að skólar og foreldrar vinni ötullega saman að því að styðja vel við máltöku og málþroska barna og stuðla að fjölbreyttum orðaforða með tíðum lestri góðra bóka og innihaldríkum samtölum frá degi til dags.

Að neðan eru tvær myndir sem teknar voru hvor á sínu málþinginu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan