Losunarbókhald Akureyrarbæjar 2019

Almenningssamgöngur geta dregið úr bílaumferð. Stærstur hluti losunar gróðurhúsalofttegunda frá Akur…
Almenningssamgöngur geta dregið úr bílaumferð. Stærstur hluti losunar gróðurhúsalofttegunda frá Akureyri kemur frá samgöngum, einkum vegasamgöngum.

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá Akureyrarbæ árið 2019 nam tæplega 159 þúsund tonnum. Langstærstur hluti kemur frá samgöngum, samkvæmt niðurstöðum úr losunarbókhaldi Akureyrarbæjar fyrir árið 2019.

Akureyrarbær er í hópi um 10 þúsund sveitarfélaga um allan heim sem eiga aðild að átakinu Global Covenant of Mayors. Með því vilja sveitarfélögin vera í forystu í loftslagsmálum, beita sér fyrir því að draga úr losun, birta tölulegar upplýsingar um frammistöðu og setja sér markmið um enn betri árangur.

Þetta er í annað sinn sem heildstætt losunarbókhald sveitarfélagsins er tekið saman og því er hægt að bera það saman við árið 2018. Jafnvel þótt umfang losunar sé svipað þá hækkar heildareinkunn Akureyrarbæjar frá fyrra ári, úr D í B, sem byggist fyrst og fremst á auknum viðbrögðum og aðgerðum til að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Þar vegur þungt að unnið er að nýrri umhverfis- og loftslagsstefnu sveitarfélagsins og aðgerðaáætlun sem mun brátt líta dagsins ljós.

Um 62% af losun frá Akureyri árið 2019 má rekja til orkunotkunar í samgöngum og eru vegasamgöngur langstærsti einstaki þátturinn. Þar eru jafnframt stærstu tækifærin til að draga úr losun. Markmið Akureyrarbæjar er einmitt að styrkja net almenningssamgangna, draga úr bílaumferð og auðvelda íbúum að komast ferða sinna með umhverfisvænum hætti. Má í því samhengi nefna verkefni eins og endurskoðun á leiðaneti Strætó, samning um rafskútuleigu og uppbyggingu á aðlaðandi og skilvirku stígakerfi. Áhugavert verður að fylgjast með því hvaða árangri þessar aðgerðir skila.

Önnur atriði sem vega þungt í losunarbókhaldinu eru sjóflutningar og fiskiskip, landnotkun, urðun úrgangs og orkunotkun í iðnaði.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan