Losunarbókhald Akureyrarbæjar 2018

Mynd: María Helena Tryggvadóttir
Mynd: María Helena Tryggvadóttir

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá Akureyrarbæ árið 2018 nam tæplega 156 þúsund tonnum. Langstærstur hluti, eða ríflega helmingur losunar, kemur frá samgöngum. Þetta kemur fram í skýrslu um losunarbókhald Akureyrarbæjar fyrir árið 2018 vegna aðildar sveitarfélagsins að átakinu Global Covenant of Mayors (GCoM).

Akureyrarbær er í hópi um 10 þúsund sveitarfélaga frá 139 löndum sem vilja vera í forystu í loftslagsmálum. Með átakinu hafa sveitarfélögin lýst yfir vilja til að bregðast ákveðið við loftslagsbreytingum, draga úr losun, birta tölulegar upplýsingar um frammistöðu í loftslagsmálum og setja markmið um enn betri árangur. Auk Akureyrarbæjar eiga tvö íslensk sveitarfélög aðild að GCoM, Reykjavíkurborg og Hveragerði.

Akureyri hefur sem sagt skuldbundið sig til að gera árlega grein fyrir kolefnisspori sveitarfélagsins og þarf að uppfylla ýmsar kröfur, meðal annars um aðgerðaáætlun í loftslagmálum.

Stefán Gíslason, sérfræðingur hjá Umhverfisráðgjöf Íslands, kynnti skýrslu fyrir árið 2018 á síðasta fundi umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar. Skýrslan inniheldur fyrsta heildstæða losunarbókhald sveitarfélagsins, þar sem gerð er grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda vegna allra athafna á svæðinu.

Hér má lesa skýrsluna.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá Akureyri nam 155.856 tonnum. Þar af má rekja um 55% til orkunotkunar í samgöngum og eru vegasamgöngur langstærsti einstaki liðurinn í losun svæðisins. Önnur atriði sem vega þungt í losunarbókhaldinu eru orkunotkun í iðnaði, urðun úrgangs og landnotkun. Ekki er hægt að segja til um hvort losun hafi aukist eða minnkað milli ára því þetta er fyrsta fullmótaða loftslagsbókhaldið. 

Í skýrslunni er fjallað um leiðir til að draga úr losun og er talið að stærstu tækifærin liggi í að draga úr losun frá samgöngum. „Þegar hefur mikið verið gert til að draga úr þessari losun, svo sem með því að gera metan aðgengilegt sem eldsneyti á farartæki, setja upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla, bjóða upp á gjaldfrjálsar almenningssamgöngur á Akureyri o.s.frv. Ástæða virðist til að gera sérstaka áætlun um enn frekari aðgerðir á þessu sviði,“ segir í skýrslunni.

Rétt er að geta þess að við útreikninga á losun vegna orkunotkunar var notast við svokallaða „eldsneytissöluaðferð“, þar sem gengið er út frá því að eldsneyti sem selt er á svæðinu sé jafnframt notað á svæðinu. Ljóst er að þessi aðferð hefur ákveðnar takmarkanir í för með sér.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan