Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á Akureyri

Brynja Karítas Thoroddsen, sigurvegari Stóru upplestrarkeppninnar 2019, og Ingibjörg Einarsdóttir, f…
Brynja Karítas Thoroddsen, sigurvegari Stóru upplestrarkeppninnar 2019, og Ingibjörg Einarsdóttir, formaður dómnefndar. Mynd: Þórarinn Torfason, kennari í Oddeyrarskóla.

Miðvikudaginn 20. mars fór Stóra upplestrarkeppnin fram í Kvosinni í Menntaskólanum á Akureyri í 19. sinn. Það eru nemendur 7. bekkja grunnskóla bæjarins sem taka þátt í keppninni ár hvert. Áður hafa skólarnir haldið forkeppni og valið tvo fulltrúa hver, auk varamanns.

Að þessu sinni voru skáld keppninnar þau Ævar Þór Benediktsson og Anna Sigrún Snorradóttir. Lesið er í þremur umferðum og í fyrstu umferð fluttu þátttakendur svipmyndir úr bók Ævars Þórs, Þín eigin þjóðsaga, í annarri umferð voru lesin ljóð eftir Önnu Sigrúnu og í þriðju og síðustu umferð valdi hver flytjandi sér ljóð til flutnings.

Upphafsdagur Stóru upplestrarkeppninnar er á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember ár hvert, en það er fæðingardagur listaskáldsins góða, Jónasar Hallgrímssonar. Fram að lokakeppni leggja nemendur og kennarar áherslu á að æfa upplestur og vanda framburð og huga vel að áherslum, túlkun og framkomu í ræðustóli.

Að venju voru nemendur sér og skólum sínum til mikils sóma þennan dag og dómarar hafa ekki verið öfundsverðir af því hlutskipti sínu að velja í verðlaunasætin. Eins og áður var það Ingibjörg Einarsdóttir sem var formaður dómnefndar en hún er einn af upphafsmönnum keppninnar sem fór fyrst fram í Hafnarfirði fyrir tuttugu og þremur árum.

Ómissandi þáttur þessarar hátíðlegu stundar er tónlistarflutningur nemenda Tónlistarskólans á Akureyri og flutti Suzuki fiðluhópur í upphafi hátíðar ungverska rapsódíu eftir Carl Böhm og á meðan dómnefnd var að störfum voru fleiri tónverk leikin af nemendum Tónlistarskólans. Þá var einnig á dagskrá fallegur upplestur Ibrahims Khattab Almohammad, nemanda í 7. bekk Glerárskóla, en hann las ljóð á móðurmáli sínu, arabísku.

Ástæða er til að þakka öllum upplesurum, tónlistarflytjendum og kennurum nemenda fyrir frábæran undirbúning og æfingar sem skiluðu sér í vönduðum og góðum flutningi fyrir fullum sali áhorfenda.

Sigurvegarar Stóru upplestrarkeppninnar 2019 eru:

  • Brynja Karítas Thoroddsen, Brekkuskóla, 1. sæti
  • Helgi Már Þorvaldsson, Lundarskóla, 2. sæti
  • Guðmar Gísli Þrastarson, Hríseyjarskóla, 3. sæti
Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan