Logi og Glóð heimsækja leikskóla

Elstu deildir leikskóla fá þessa dagana skemmtilega og lærdómsríka heimsókn frá slökkviliðinu á Akureyri. Markmiðið er að fræða börnin um brunavarnir.

Logi og Glóð er forvarnarverkefni á landsvísu sem hófst vorið 2007. Slökkviliðsmenn spjalla við börnin um eldvarnir á heimilum og sýna þeim stutta mynd um slökkviálfana Loga og Glóð. Þá fá börnin að sjá slökkviliðsmann í slökkvigalla og með reykköfunartæki og að lokum að skoða slökkvibílinn, sem mörgum þykir mjög spennandi.

Eftir heimsóknina fá börnin viðurkenningarskjöl og eru þar með orðnir aðstoðarmenn slökkviliðsins. Í því felst að þau fara reglulega um leikskólann sinn ásamt kennara og fara yfir hvort brunavarnir séu ekki í lagi.

Næsta vor verður svo venju samkvæmt blásið til mikillar veislu á slökkvistöðinni sem er hluti af verkefninu. Þá fara slökkviliðsmenn á rútum og sækja krakkana á leikskólann sinn. Þau spreyta sig á þrautabraut, sprauta úr brunaslöngu og margt fleira. Síðan eru grillaðar pylsur, áður en börnunum er ekið til baka.

Á heimasíðu slökkviliðsins eru frekari upplýsingar um Loga og Glóð.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan