Listamenn athugið

Katrín Birna Vignisdóttir, annar sumarstyrkhafa Menningarsjóðs 2019. Mynd: Helga Gunnlaugsdóttir.
Katrín Birna Vignisdóttir, annar sumarstyrkhafa Menningarsjóðs 2019. Mynd: Helga Gunnlaugsdóttir.

Athygli er vakin á því að frestur til að sækja um starfslaun listamanna 2020 og sumarstyrki til ungra listamanna rennur út sunnudaginn 9. febrúar.

Starfslaun listamanna
Umsóknir skulu innihalda greinargóðar upplýsingar um hvernig starfslaunatíminn verður notaður, listferil og menntun. Árið 2020 eru veitt starfslaun að upphæð 2.700.000 kr. sem dreifast jafnt yfir 9 mánuði. Öllum með lögheimili á Akureyri er heimilt að sækja um í eigin nafni.

Sumarstyrkur ungra listamanna
Stjórn Akureyrarstofu hefur ákveðið að í ár verði úthlutað 1-2 styrkjum til ungs og efnilegs listafólks á aldrinum 18-25 ára sem er í framhaldsnámi eða á leið í framhaldsnám í sinni grein. Upphæð hvers styrks verður 600.000 kr. og markmiðið er að viðkomandi geti dregið úr sumarvinnu með námi og þess í stað lagt stund á list sína bæði með æfingum og viðburðum. Á móti styrknum mun viðkomandi koma fram á viðburðum á sumarhátíðum bæjarins, allt eftir nánari samkomulagi við Akureyrarstofu hverju sinni.

Hagnýtar upplýsingar
Við úthlutun er litið til fjölbreytileika í starfsemi, aldurs þátttakenda, jafnréttis og sýnileika. Upplýsingar um reglur Menningarsjóðs, Samþykkt um starfslaun listamanna og Menningarstefnu Akureyrar má sjá hér á heimasíðu Akureyrarbæjar. Sótt er um rafrænt í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar. Athugið að einungis er hægt að opna umsóknina með íslykli eða rafrænum skilríkjum. Nánari upplýsingar veitir Almar Alfreðsson verkefnastjóri menningarmála í netfanginu almara@akureyri.is.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan