Leikskólabörn skrifast á við forseta

Myndir sem börnin teiknuðu af Guðna og Elizu
Myndir sem börnin teiknuðu af Guðna og Elizu

Elstu nemendur í leikskólanum Kiðagili hafa undanfarið fengið fræðslu og gert verkefni í tengslum við forseta Íslands. Börnin voru raunar að læra málhljóðið Á og þar af leiðandi um Álftanes þar sem forsetinn býr.

Þeim fannst tilvalið að teikna myndir af Guðna og Elizu og senda forsetanum bréf með nokkrum spurningum. Þau vildu til dæmis vita hvort Guðni ætti börn, hvað hann gerir í vinnunni, hvort hann eigi dýr eða dót og hvort hann ferðist mikið til útlanda.

Börnin biðu eðlilega spennt eftir svari sem barst svo fyrir nokkrum dögum. Í svarbréfi þeirra hjóna, Guðna og Elizu, eru börnunum, fjölskyldum þeirra, vinum og starfsfólki leikskólans sendar góðar kveðjur og segjast þau hafa gaman af því að koma til Akureyrar, enda sé alltaf tekið vel á móti þeim.

Guðni svaraði spurningunum samviskusamlega og upplýsti meðal annars um að hann hefði farið sérstaklega oft til útlanda eftir að hann varð forseti. Þá sagði hann börnunum frá kisunni sinni sem er 15 ára og leikföngum frá æskuárunum. Spurður hvort hann vilji koma í heimsókn segist hann gjarnan vilja það einn daginn, en geti þó engu lofað.

Börnin voru ánægð með svarbréfið og eru fyrir vikið margs vísari um líf og störf forsetans.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan