Dagur leikskólans

Frá Tónaflóði leikskólabarna og Tónlistarskólans á Akureyri í Hofi í gær. Þar var einnig sungið í mo…
Frá Tónaflóði leikskólabarna og Tónlistarskólans á Akureyri í Hofi í gær. Þar var einnig sungið í morgun og á morgun, fimmtudaginn 8. febrúar kl. 10, syngja börn frá Hólmasól, Tröllaborgum og Pálmholti á sviðinu. Allir velkomnir. Mynd: Ellert Örn Erlingsson.

Dagur leikskólans var í gær og var margt skemmtilegt á döfinni hjá leikskólum bæjarins af því tilefni. 

Á Hólmasól teiknuðu börnin myndir og færðu nágrönnum í nærliggjandi götum þær með bestu kveðjum. Þetta hefur verið gert í nokkur ár. Þau yngstu teiknuðu myndir sem þau tóku með heim.

Á Hulduheimum fóru tveir elstu árgangarnir og sungu í Hofi á sameiginlegri söngskemmtun leik- og tónlistarskóla Akureyrar. Eftir hádegi gerðu allir sér glaðan dag saman og skemmtu sér eins og aðra daga á einn eða annan hátt.

Í Lundarseli var foreldrum boðið að koma og leira með börnunum sínum.

Á Naustatjörn fóru börn sem fædd eru 2012 og 2013 í Hof og tóku þátt í söngvaflóði. Yngri deildarnar, Búðargil og Vökuvellir, fóru í Bónus í Naustahverfi og hengdu upp myndlistarsýningu þar.

Í dag var opið hús á Naustatjörn og foreldrum boðið að koma og kíkja á starfið í leikskólanum.

Í tilefni dagsins á Tröllaborgum báru börnin út mynd í umslagi sem þau höfðu málað í nokkur hús í nágrenni Tröllaborga. Þannig minntum þau á sig og mikilvægi þess að í bænum okkar eru margir frábærir leikskólar.

Á leikskólanum í Hrísey var opið hús og boðið upp á vöfflur í tilefni dagsins.

Dagur leikskólans er haldinn 6. febrúar ár hvert í tilefni af því að þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan