Landsfundur um jafnréttismál sveitarfélaga

Fundurinn var haldinn með rafrænum hætti í ár.
Fundurinn var haldinn með rafrænum hætti í ár.

Árlegur landsfundur um jafnréttismál sveitarfélaga var haldinn í vikunni og var með óvenjulegu sniði að þessu sinni sökum aðstæðna sem öllum eru kunnar. Fundurinn var haldinn í samstarfi Akureyrarbæjar, Jafnréttisstofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í stað þess að safna þátttakendum saman á Akureyri eins og að hafði verið stefnt þá var haldinn fjarfundur. 

Dagskráin var fróðleg og var meðal annars kynning á nýrri mannréttindastefnu Akureyrarbæjar. Þá var einnig horft til þeirra fyrirhugðu breytinga á kynjajafnréttislögum sem kynntar hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda, auk þess sem Jafnréttisstofa kynnti fyrirhugaða útgáfu á gátlistanum Iðkum lýðræðið en hann er ætlaður til nota við skipulagningu viðburða.

Aðalerindi dagsins voru tvö. Fayrouz Nouh kynnti rannsókn sína á arabískum múslímakonum á Íslandi sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og Markus Meckl sagði frá rannsókn á kynjuðum áskorunum sem fylgja fólksflutningum.

Að loknum aðalerindunum skiptist hópurinn í vinnustofur þar sem voru fjölbreytt umfjöllunarefni. Meðal annars hélt fulltrúi ungmennaráðs Akureyrarbæjar erindi um mikilvægi radda barna í starfi sveitarfélaga. 

Fundurinn var vel sóttur en alls tóku rúmlega 60 manns þátt.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan