Nýtt stígakerfi Akureyrarbæjar

Tillaga að nýju stígakerfi innan Akureyrarbæjar liggur fyrir og er hún sett fram sem breyting að aðalskipulagi 2018-2030. Skipulagsráð bæjarins hefur samþykkt að kynna tillöguna í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Breytingin felur í sér nýtt heildarskipulag fyrir stígakerfið innanbæjar. Er tillagan unnin í samræmi við markmið bæjarins um að byggja upp skilvirkt, öruggt og aðlaðandi stígakerfi sem gerir íbúum kleift að sinna vinnu, daglegum erindum og frístundum allt árið um kring. Í tillögunni er stígakerfið flokkað í stofnstíga, tengistíga, útivistarstíga, reiðstíga og almenna stíga.

Í skipulaginu er meðal annars gert ráð fyrir auknum aðskilnaði gangandi og hjólandi umferðar með uppbyggingu á nýjum stofnstígum og endurbótum á þeim sem fyrir eru. 

Gögn aðalskipulagsbreytingarinnar er hægt að nálgast hér:

Greinargerð

Uppdráttur - gildandi og breyttir stígar

Gildandi þéttbýlisuppdráttur af Akureyri

Í ljósi aðstæðna verða útprentuð gögn ekki aðgengileg á 1. hæð í Ráðhúsinu eins og almennt er gert.

Ekki er gert ráð fyrir sérstökum kynningarfundi um stígakerfið að sinni en íbúum gefst tækifæri til að senda inn spurningar til 20. maí á netfangið skipulagssvid@akureyri.is. Spurningum verður svarað skriflega á heimasíðunni í kjölfarið. Nafn sendanda verður ekki birt.

Frekari upplýsingar eru veittar á skipulagssviði Akureyrar með því að senda inn fyrirspurn á skipulagssvid@akureyri.is eða í síma 460 1110 á milli 10-12 alla virka daga.

Athugið að þetta er eins konar forkynning og einungis drög að stígakerfi sem eru til kynningar. Eftir frekari meðferð og síðan samþykkt bæjarstjórnar verður tillaga að aðalskipulagsbreytingu auglýst í sex vikur og þá gefst fólki tækifæri til að skila inn athugasemdum.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan