Kveðja til Vestfirðinga

Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri hefur fyrir hönd íbúa Akureyrar sent íbúum Vestfjarða hlýjar kveðjur vegna snjóflóðanna sem féllu í gærkvöldi.

Kveðjan sem hún sendi til Guðmundar Gunnarssonar bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar er svohljóðandi: „Kæru vinir! Íbúar Akureyrarbæjar senda Flateyringum, Súgfirðingum og Vestfirðingum öllum hlýjar kveðjur á erfiðum tímum. Við erum með ykkur í huga og hjarta."

Ásthildur segir að þessir hrikalegu atburðir fái mjög á hana líkt og alla aðra landsmenn. „Ég er slegin og þótti skelfilegt að heyra þessar fréttir seint í gærkvöldi. Það er á stundum sem þessum sem við sem búum á þessu landi finnum svo sterkt hvernig við erum öll á einhvern hátt hluti hvert af öðru. Samstaðan verður svo kristaltær. Ég get varla lýst því hversu djúpt það snart mig að heyra um giftusamlega björgun stúlkunnar úr flóðinu á Flateyri. Við búum á Íslandi, náttúran getur verið óblíð og grimm. Hugur minn er hjá fólkinu fyrir vestan," segir Ásthildur Sturludóttir.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan