Kláfur á tind Hlíðarfjalls?

Tölvuteikning að fyrirhugaðri aðkomu upp á tind Hlíðarfjalls með nýjum kláfi. Mynd: Yrki Arkitektast…
Tölvuteikning að fyrirhugaðri aðkomu upp á tind Hlíðarfjalls með nýjum kláfi. Mynd: Yrki Arkitektastofa.

Í dag var undirritaður í húsakynnum Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar samningur um stofnun undirbúningsfélagsins Hlíðarhryggur ehf. en að félaginu standa Sannir Landvættir, Íslensk Verðbréf, Yrki Arkitektar, Akureyrarbær, Verkís og Umsýslufélagið Verðandi. Hópurinn hefur það að markmiði að Hlíðarfjall bjóði upp á víðtæka möguleika til útivistar og afþreyingar allt árið um kring.

Hópurinn var myndaður í kjölfar þess að Akureyrarbær fól Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar að auglýsa eftir áhugasömum aðilum til að taka að sér rekstur og uppbyggingu skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli með það að markmiði að auka þjónustu við bæjarbúa, íþróttaiðkendur og ferðamenn.

Tillaga hópsins byggir á að taka allt Hlíðarfjallssvæðið í sína umsjá næstu 35-40 árin, byggja það upp, markaðssetja og reka með hagsmuni sem flestra að leiðarljósi. Rík áhersla er lögð á að svæðið þjóni eins breiðum hópi samfélagsins og kostur er og tryggt verði gott aðgengi fyrir alla að Hlíðarfjalli sem heilsárs útivistarparadís. Haft verður víðtækt samráð við íþrótta- og útivistarfélög sem áhuga hafa á að nýta þá aðstöðu sem fjallið býður upp á.

Í tillögunni er meðal annars gert ráð fyrir að opnað verði fyrir aðgengi upp á topp fjallsins með kláfi og öllum þannig gert kleift að njóta svæðisins. Aðstaða fyrir gesti og íþróttafélög sem sækja svæðið heim verður stórbætt. Vernd náttúru Hlíðarfjalls og aðliggjandi svæða verður í fyrirrúmi og fullt tillit tekið til vatnsverndarsvæða er umlykja það.

Stýrihópur á vegum stofnaðila hefur verið settur á laggirnar. Hópurinn vinnur að málinu og ræðst á næstu vikum í ítarlega og nauðsynlega greiningarvinnu á ástandi svæðisins, húsa- og tækjakosti þess ásamt greiningu á rekstarforsendum og hugsanlegri fjármögnun.

Á næstu vikum mun stýrihópurinn eiga fundi með hugsanlegum samstarfsaðilum og fjárfestum. Mikill metnaður er lagður í að eiga gott samstarf við alla sem nota svæðið og opna möguleika fyrir þá sem hafa hug á að nýta það með nýjum hætti.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan