Jónas Hallgrímsson hylltur í Hofi

Jónas Hallgrímsson.
Jónas Hallgrímsson.

Jónasarsetur, Menningarfélagið Hraun í Öxnadal, býður til afmælisdagskrár Jónasar Hallgrímssonar þjóðskálds, náttúrufræðings og nýyrðasmiðs undir heitinu "Á íslensku má alltaf finna svar" laugardaginn 18. nóvember kl. 14 í Hamraborg í Hofi í samvinnu við Menningarfélag Akureyrar.

Afmælisdagskráin einkennist af tali og tónum. Kristín S. Árnadóttir bókmenntafræðingur verður með hugleiðingu um Jónas Hallgrímsson og orðasmíð hans.

Vandræðaskáldið Villi leikur sér með orð til heiðurs afmælisbarninu. Barnaraddir munu óma um allt hús þegar eldri barnakór og stúlknakór Akureyrarkirkju syngja lög við texta Jónasar undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur.

Þessu næst hristir rapparinn Viljar Níu upp í áheyrendum um leið og hann hyllir nýyrðasmiðinn Jónas.

Ljóð ungskálda, sem tekið hafa þátt í samkeppni Amtsbókasafnsins og Akureyrarbæjar, verða lesin upp. Ætli Jónas hafi jafnvel veitt þeim innblástur við skrifin?

Það eru svo norðlensku tónlistarkonurnar Þórhildur Örvarsdóttir, Helga Kvam og Lára Sóley Jóhannsdóttir sem setja punktinn yfir i-ið og syngja og leika nokkur lög við texta Jónasar.

Það er hinn óborganlegi oddur Bjarni Þorkelsson sem hnýtir dagskrárliðina saman af sinni alkunnu snilld.

Enginn aðgangseyrir er á dagskrána og allir því hjartanlega velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Húsið verður opnað kl. 13.45.

Uppbyggingarsjóður Eyþings styrkir viðburðinn.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan