Jólin koma í Skógarlund

Ragnheiður sýnir Ásthildi hvernig augnstýrði tölvuskjárinn virkar. Mynd: Ragnar Hólm.
Ragnheiður sýnir Ásthildi hvernig augnstýrði tölvuskjárinn virkar. Mynd: Ragnar Hólm.

Í síðustu viku heimsótti Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Skógarlund þar sem starfrækt er miðstöð virkni og hæfingar fyrir fatlað fólk. Fyrr í mánuðinum var haldinn vel heppnaður jólamarkaður í Skógarlundi og þar eru nú allir smám saman að komast í sannkallað jólaskap.

Um þessar mundir njóta 46 einstaklingar þjálfunar í Skógarlundi, hálfan daginn í senn, fyrir eða eftir hádegi. Starfinu er skipt upp í níu starfsstöðvar og hver og einn vinnur í tveimur þeirra dag hvern.

Ásthildur heilsaði upp á fólkið, færði húsinu stóran konfektkassa og kynnti sér nýjungar í því þróttmikla starfi sem fram fer í Skógarlundi. Ragnheiður Júlíusdóttir forstöðumaður, sagði Ásthildi frá þeim áherslum sem hafðar eru að leiðarljósi, sýndi henni starfstöðvarnar níu og ýmsa tækni sem notuð er til að örva og auðvelda virkni þeirra sem þangað koma, m.a. talvélar, rofabox og augnstýrðan tölvuskjá.

Ragnheiður segir að markmiðið sé að bjóða einstaklingum með langvarandi stuðningsþarfir þjónustu og þjálfun sem miðar að því að viðhalda og auka færni, veita tilbreytingu og upplifun, gleði og lífsgæði. „Áhersla er einnig lögð á boðskipti og daglegt skipulag sett upp með myndrænum hætti. Starfið í Skógarlundi er alltaf í þróun og mikilvægt fyrir okkur fylgjast vel með nýjungum," segir Ragnheiður Júlíusdóttir.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan