Jólapósturinn í Hrísey

Jólasveinar í póstútburði í Hrísey
Jólasveinar í póstútburði í Hrísey

Það er löng hefð fyrir því að jólasveinar komi jólakortum og pökkun til skila innan Hríseyjar fyrir jólin með aðstoð björgunarsveitarinnar í eyjunni.

Ungmennafélagið Narfi hefur séð um skipulagið í allt að 55 ár en ungmennafélagið var stofnað 23 febrúar 1964 og það var fljótlega eftir stofnun félagsins að þau tóku að sér þetta verkefni að bera út jólapóstinn. Móttaka á jólasendingum hefur verið í verslun eyjarinnar síðustu árin og svo hefur Björgunarsveitin Jörundur séð um að keyra jólasveinana á milli húsa í eyjunni svo þeir eigi auðveldara með að bera út póstinn. Þarna hefur því gefist gott tækifæri til að hreyfa tæki björgunarsveitarinnar og halda mannskapnum við.

Það má segja að heimsókn jólasveinanna á Þorláksmessu sé einn af föstum liðum í jólaundirbúningi eyjarskeggja og væru án efa einhverjir sem ekki kæmust í jólagírinn ef þessi siður myndi leggjast af. Jólasveinarnir eru oft í yngri kantinum með eldri og reynslumeiri sveinka með sér og því eru margir sem hér alast upp sem einhvern tímann hafa brugðið sér í jólasveinagervi.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan