Auknar niðurgreiðslur vegna þjónustu dagforeldra

Jöfnunargreiðslur verða teknar upp hjá Akureyrarbæ frá og með 1. október. Foreldrar 16 mánaða barna og eldri sem nýta þjónustu dagforeldra, og hafa ekki fengið boð um leikskóladvöl, eiga þá rétt á aukinni niðurgreiðslu, að upphæð 10 þúsund krónum.

Fræðsluráð samþykkti þetta í vikunni. Foreldrar barna sem eru fædd í maí 2018 eiga rétt á niðurgreiðslu frá þeim mánuði sem barnið nær 16 mánaða aldri, 1. október. Foreldrar barna sem eru fædd í júní 2018 eiga rétt á niðurgreiðslu frá og með 1. nóvember og svo koll af kolli, að því gefnu að barn hafi ekki fengið boð um leikskóladvöl.

Liður í að brúa bilið

Tilgangurinn er að jafna stöðu foreldra sem eru annars vegar með börn hjá dagforeldrum og hins vegar á leikskóla. Munurinn á gjaldinu orsakast fyrst og fremst af því að áttundi tíminn hjá dagforeldrum hefur ekki verið niðurgreiddur, auk þess sem fæðisgjald dagforeldra er hærra en á leikskóla.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, formaður fræðsluráðs, segir að jöfnunargreiðslur séu liður í að bæta kjör og hag barnafólks á Akureyri, sem er eitt af aðaláherslumálum kjörtímabilsins. „Ein af meginleiðunum til að ná þessu markmiði er að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum leiðum,“ segir Ingibjörg.

Laus pláss hjá dagforeldrum

Nú hefur öllum börnum á Akureyri, sem eru fædd í apríl 2018 eða fyrr, verið boðin leikskóladvöl í haust, sem eru mánuði yngri börn en áður.

28 dagforeldrar verða starfandi á Akureyri í september og hefur 101 barni verið úthlutað plássi. Enn eru um 30 pláss laus og því eru engir biðlistar eftir þjónustu dagforeldra.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan